Innrásin er sögð yfirvofandi
Það ýtir undir líkur á yfirvofandi loftárás Rússa á Kiev að fréttir berast um brottflutning starfsmanna í rússnesku sendiskrifstofunni í borginni.
Liz Truss, utanríkisráðherra Breta, hitti Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, fimmtudaginn 10. febrúar á kuldalegum fundi. Að honum loknum fór Truss rangt með einhver staðarheiti. Þetta gladdi Lavrov sem talaði niður til breska ráðherrans eins og ýmsum er tamt að gera þegar konur eiga í hlut. Af kaldhæðni fann hann að landafræðikunnáttu hennar.
Atvikið dró athygli frá því að Lavrov endurtók yfirlýsingarnar um að Rússar ætluðu ekki að ráðast inn í Úkraínu. Allt bendir til að þetta sé mest endurtekna lygi á fundum stjórnmálamanna og diplómata undanfarna mánuði. Í dag (12. febrúar) birtast fréttir um að Rússar ætli að ráðast inn í Úkraínu miðvikudaginn 16. febrúar.
Þýska blaðið Der Spiegel segir að leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, og bandaríska varnarmálaráðuneytið hafi fengið í hendur rússnesk trúnaðargögn sem hafi að geyma „einstaklega nákvæma“ innrásaráætlun og henni verði hrundið í framkvæmd 16. febrúar.
Sagt er að gögnin hafi að geyma upplýsingar um leiðir einstakra eininga rússneska hersins innan Úkraínu og hvert hlutverk þeirra sé í átökunum. Der Spiegel segir að í Washington velti stjórnvöld fyrir sér hvort birta eigi skjölin opinberlega.
Talin er hætta á að Vladimir Pútin hefji átökin með fyrirmælum um sprengjuárásir á Kiev, höfuðborg Úkraínu.
Stjórnvöld ýmissa ríkja, þar á meðal Íslands, hvetja ríkisborgara sína til að hafa sig á brott frá Úkraínu. Íslenska utanríkisráðuneytið veit um átta íslenska ríkisborgara í landiu.
Það ýtir undir líkur á yfirvofandi loftárás Rússa á Kiev að fréttir berast um brottflutning starfsmanna í rússnesku sendiskrifstofunni í borginni og ræðisskrifstofum annars staðar í Úkraínu . Rússneska utanríkisráðuneytið segir um „hagræðingu“ að ræða!
Þetta kort birtist á vefsíðu BBC 12. febrúar. Af því má sjá að Rússar sitja með her um Úkraínu. Næst Kiev, fyrir norðan landamærin að Hvíta-Rússlandi (Belarus), eru nú um 30.000 rússneskir hermenn á æfingu. Þeim má fyrirvaralaust beina inn í Úkraínu eftir loftárásir á Kiev.
Undanfarna daga hafa NATO-ríkin sent aukinn herafla til nágrannaríkja Úkraínu en ekki inn í landið. Fréttir eru um að alls séu 66.300 hermenn í liði Bandaríkjanna í Evrópu. Á korti sem birtist á vefsíðu danska ríkisútvarpsins, DR, segir að 29 bandarískir hermenn séu í Svíþjóð og 81 í Noregi en enginn er sagður á Íslandi. Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja viðræður við Bandaríkjastjórn um viðveru bandarískra hermanna í Danmörku.
Allt er þetta vísbending um aukinn viðbúnað undir merkjum NATO og á vegum Bandaríkjamanna vegna umsátursins um Úkraínu. Ráðist Rússar inn í landið duga refsiaðgerðir á sviði efnahagsmála skammt. Aðeins eitt verður talið halda Rússum í skefjum og tryggja öryggi þjóða Evrópu, það eru öflugar hervarnir í krafti kjarnorkuvopna. Þá munu átökin í netheimum magnast og ef til vill ekki aðeins verða á þann veg að gripið sé til varna gegn árásum heldur einnig ráðist markvisst gegn kerfum árásarþjóðanna, Rússa, Kínverja, Írana og Norður-Kóreumanna.
Það er barnaskapur að ímynda sér að ríkisstjórn Íslands standi ekki frammi fyrir nýjum ákvörðunum í öryggismálum vegna þessarar þróunar. Þær verður að kynna, ræða og taka af einurð og óttalaust.