17.11.2017 14:40

ÍNN lokað - útsendingum hætt

Í sjálfu sér kom ekki á óvart þegar Kristinn Svanur Jónsson, upptökustjóri á ÍNN, hringdi í mig í gær og sagði að slökkt yrði á sjónvarpsstöðinni þá um kvöldið.

Í sjálfu sér kom ekki á óvart þegar Kristinn Svanur Jónsson, upptökustjóri á ÍNN, hringdi í mig í gær og sagði að slökkt yrði á sjónvarpsstöðinni þá um kvöldið. Svanur hafði staðið einn vaktina á ÍNN undanfarna mánuði og tekið upp þættina mína klukkan 11.30 á miðvikudögum og á öðrum tímum ef svo bar undir, til dæmis þegar ég ræddi við Þjóðverjana Wolfgang Ischinger sendiherra og Manfred Nielson aðmírál. Hann hafði einnig sett íslenska þýðingu mína á samtölunum inn á upptökuna. Hann sá um „sminkið“ og raunar allt sem snerti stöðina undir lokin. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson kom í upptöku um miðjan október sagði hann okkur að hann hefði eitt sinn farið í upptöku hjá bandarísku ABC-sjónvarpsstöðinni í Minneapolis og þar hefði enginn verið nema spyrjandinn, hann hefði séð um tæknilegu hliðina líka. Án Svans, alúðar hans og dugnaðar, hefði ÍNN ekki lifað þó þetta lengi þrátt fyrir algjört áhugaleysi eigenda hennar undanfarin misseri. Ég þakkaði Svani gott samstarf.

Tæknibúnaðurinn var orðinn slitinn hjá ÍNN. Síðsumars tókum við Svanur upp þátt með Íslendingi búsettum erlendis. Ég ætlaði að sýna þáttinn síðar en því miður bilaði „harði diskurinn“ í upptökutölvunni og þátturinn týndist. Við ætluðum að endurtaka samtalið þegar viðmælandinn ætti leið til landsins en af því verður líklega ekki undir merkjum ÍNN.

Við uppfærslu á vefsíðu minni fyrr á árinu bættist við nýr tengill á vefslánni: Þættir. Þar er unnt að skoða hluta ÍNN-þátta minna frá því að ég tók fyrsta viðtalið á stöðinni í ágúst 2009 við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáv. borgarstjóra.

Þarna eru birt nöfn viðmælenda minna frá desember 2010 þegar stöðin tók að vista þætti sína á netinu. Það er þó ekki fyrr en 2012 sem vistun á netinu verður regluleg. Fram til apríl 2014 notaði ÍNN YouTube og fylgja krækjur á þætti þar með nöfnum viðmælenda. Frá apríl 2014 eru þættir aðgengilegir á Vimeo og nægir að slá á myndina á síðunni til að kalla upp viðkomandi þátt. Við nöfnin er birt dagsetning, útsendingardags.

Síðasti viðmælandi minn miðvikudaginn 15. nóvember var Steinunn Kristjánsdóttir prófessor og ræddum við merka bók hennar um leitina að klaustrunum.

Sumarið 2009 spurði Ingvi Hrafn Jónsson, stofnandi og fyrsti eigandi ÍNN, mig hvort ég vildi taka að mér að halda úti viðtalsþætti á stöð hans. Ég varð við áskoruninni og hef verið við stöðina síðan, fyrst í annarri hvorri viku en undanfarin misseri í hverri viku. Fyrst var þátturinn sýndur klukkan 21.00 á miðvikudagskvöldum en síðar færðist hann fram til kl. 20.00.

Fram á þetta ár var tveggja tíma dagskrá á stöðinni milli 20.00 og 22.00 sem síðan var endursýnd í sólarhring. Stöðin var til húsa á Fiskislóð 14 og flutti síðar í Ármúla 40 og var þar þegar henni var lokað.

Þáttastjórnendum fækkaði og þeir voru skornir frá sem leiddu af sér kostnað fyrir stöðina. Ég starfaði allan tímann launalaust að mínum þáttum. Við Ingvi Hrafn sömdum um það í upphafi. Þegar eignarhaldið hvarf frá honum var því aldrei hreyft við mig að greitt yrði fyrir vinnuna og þeir sem ákváðu að loka stöðinni hafa ekki einu sinni látið svo lítið að þakka mér störf fyrir hana.

Í gær, eftir að tilkynnt var um lokun ÍNN, fór ég í Háskóla Íslands og hlustaði á Kristján Árnason, prófessor emeritus, flytja fyrirlestur um uppruna íslenskrar tungu. Stofa 101 í Lögbergi var þéttsetin. Af vinsemd höfðu nokkrir gesta á fyrirlestrinum orð á því við mig að skarð væri fyrir skildi með endalokum þáttar míns.

Mér hefur ekki verið ljóst hve margir horfðu á þættina en frásagnir viðmælenda minna voru oft á þann veg að áhorfendur væru fleiri en þeir hefðu vænst. Þá er ég þakklátur fyrir vinsamleg viðbrögð í netheimum eftir lokun ÍNN og hvatningu um að halda áfram á sömu braut annars staðar.

Ingvi Hrafn átti stöðina þegar ég hóf þáttagerð þar en síðan fylgdist ég ekkert með hvernig eignarhaldinu var háttað og veit ekki hverjir „stjórnendurnir“ eru sem tóku ákvörðun um lokunina með þessari tilkynningu á Facebook síðdegis 16. nóvember:

„Útsendingum ÍNN hætt

Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN hafa ákveðið að leggja stöðina niður og verður útsendingum hennar hætt í kvöld.

ÍNN hefur glímt við mikinn rekstrar- og skuldavanda um árabil. Tækjabúnaður stöðvarinnar þarfnast endurnýjunar og ljóst er að stöðin verður ekki rekin áfram nema nýtt fjármagn komi til.

Hlutafé í ÍNN var meðal þess sem Frjáls fjölmiðlun keypti af Pressunni í haust. Niðurstaðan nú er sameiginleg milli stjórnar Pressunnar og eiganda Frjálsrar fjölmiðlunar, en bæði félögin hafa lagt ÍNN til fjármagn undanfarin misseri.“