Inga Sæland veit hvað hún syngur
Það kemur til kasta alþingis 4. febrúar að leggja blessun sína yfir ráðherrann Ingu Sæland. Hún veit vissulega hvað hún syngur með ríkisstjórnina í vasanum.
Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, birtir í dag (29. janúar) lýsingu á fjármálum Flokks fólksins sem hann segir að hafi verið þrætuepli í flokknum um árabil. Birtist greinin vegna umræðna sem orðið hafa frá því að Morgunblaðið greindi frá því í liðinni viku að Flokkur fólksins hefði þegið 240 milljónir króna í opinbera styrki þrátt fyrir að uppfylla ekki lagaskilyrði til þess.
Yfirlitið sem birtist núna vekur spurningar um hvort þær Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hafi gert áreiðanleikakönnun áður en þær leiddu Ingu Sæland til öndvegis í stjórninni sem mynduð var 21. desember 2024.
Vegna greiðslna úr ríkissjóði til Flokks fólksins án þess að hann uppfyllti lagaskilyrði hafa málsmetandi talsmenn ríkisstjórnarinnar og álitsgjafar gengið fram fyrir skjöldu til að gera sem minnst úr þessum skilyrðum annars vegar og hins vegar til að skella skuldinni á þá sem báru ábyrgð sem stjórnmálamenn eða embættismenn á því að Inga Sæland fékk 240 milljónir króna úr ríkissjóði.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra notar það sem vörn vegna þessa máls að hún þekki ekki efnisþætti þess til fulls, hún verði að sjá skýrslu frá Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra áður en hún segi álit sitt eða taki af skarið.
Kristrún getur á hinn bóginn ekki skotið sér á bak við embættismenn eða meðráðherra þegar lagt er mat á þá ákvörðun hennar að leiða Ingu Sæland og hóp hennar inn í stjórnarráðið og að ríkisstjórnarborðinu.
Asinn, söngurinn og valkyrjulætin í kringum stjórnarmyndunina kæfðu allar málefnalegar umræður og leiddu til þess að stjórnarsáttmálinn er næfurþunnur og fyrsta máli ríkisstjórnarinnar, hagsýni í ríkisfjármálum, var skotið til almennings og forstjóra ríkisstofnana og síðan sett í nefnd.
Augljóst var að þá leiddi Inga Sæland vagninn. Kristrún og Þorgerður Katrín voru eins og bakraddir þegar hún tók lagið. Allt var svo leikandi létt og skemmtilegt.
Við hlið úttektar Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu í dag birtist samtal blaðamanns við Ingu Sæland eftir fund ríkisstjórnarinnar þriðjudaginn 28. janúar. Þar segir að Inga hafi virst „hin rólegasta“ þrátt fyrir að endurgreiðslukrafa opinberra styrkja gæti stefnt Flokki fólksins í þrot
Þegar blaðamann bar að garði stóð Inga fyrir utan fundarherbergið og söng þjóðhátíðarlagið „Lífið er yndislegt“, segir í fréttinni.
Blaðamaður spurði Ingu hverju þyrfti að breyta í samþykktum flokksins til þess að hann mætti skrá á stjórnmálasamtakaskrá.
Inga: „Við verðum fyrst og síðast að heita stjórnmálaflokkur eftir að nýju lögin tóku gildi.“
Blaðamaður: En samþykktir flokksins skilgreina hann sem stjórnmálasamtök nú þegar.
Inga hissa: „Þú ert að segja mér fréttir. Ég bara fer í þetta strax.“
Í fyrstu gr. samþykkta Flokks fólksins segir: „1.1 Heiti stjórnmálasamtakanna er Flokkur fólksins.“
Það kemur til kasta alþingis 4. febrúar að leggja blessun sína yfir ráðherrann Ingu Sæland. Hún veit vissulega hvað hún syngur með ríkisstjórnina í vasanum.