21.1.2025 10:08

Inga Sæland – spilling frá a til ö

Inga fer sjálf með prókúru flokksins. Hér hefur flokknum verið lýst sem kennitölu. Er augljóst að Inga Sæland gætir hagsmuna hennar af alúð.

Skömmu fyrir þingkosningarnar 30. nóvember 2024 féll héraðsdómur um að alþingismenn hefðu brotið gegn stjórnarskránni við breytingu á búvörulögunum sem vörðuðu meðal annars undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og núverandi félagsmálaráðherra, fagnaði niðurstöðu dómarans á mbl.is 19. nóvember 2024. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður atvinnuveganefndar þegar tillagan um lagabreytinguna var gerð, sagði hins vegar að niðurstaða héraðsdóms kæmi á óvart.

Nefndi Þórarinn Ingi að lögfræðingar nefndarsviðs alþingis hefðu farið ítarlega yfir breytingarnar sem nefndin gerði á frumvarpinu og metið að afgreiðslan væri í lagi.

Þá sagði Inga Sæland að lögfræðingar hefðu vikið fyrir vini sína og bætti við:

„Þetta er spilling. Þetta heitir á íslensku spilling með stóru ess-i. Þetta er dæmi um spillingu frá a til ö. Þetta er skýrt dæmi um spillingu.“

Hér er þetta nýlega dæmi tekið til að minna á hörkuna sem formaður Flokks fólksins sýndi í aðdraganda síðustu kosninga sem endranær á pólitískum ferli sínum gegn spillingu. Þarna sakaði hún ekki aðeins meirihluta atvinnuveganefndar þingsins um spillingu við gerð tillögu um lagabreytingu heldur einnig starfsmenn alþingis, lögfræðinga á nefndarsviði alþingis sem voru þingmönnum til ráðgjafar. Umræddum dómi var áfrýjað, endanleg afstaða dómara er ekki ljós þótt Inga Sæland telji sig vita hvað spillingarklukkan slær.

Screenshot-2025-01-21-at-09.59.15

Hér hefur oftar en einu sinni verið vikið að skipulagi og stjórnarháttum í flokki Ingu Sæland sem hún nefnir Flokk fólksins. Hún hefur valið marga yfirlýsta andstæðinga spillingar á framboðslista fyrir flokkinn. Í þeim hópi er til dæmis Ragnar Þór Ingólfsson verkalýðsforingi sem bíður þess að verða kjörinn formaður fjárlaganefndar alþingis þegar það loksins kemur saman.

Við þetta val hefur Inga haft frjálsar hendur enda hefur flokknum verið lýst sem möppu um hana og störf hennar, möppu sem hún opnar ekki fyrir öðrum enda eru þar engin kjördæmisráð eða uppstillingarnefndir og landsfundur hefur ekki verið haldinn síðan 2018. Inga fer sjálf með prókúru flokksins. Hér hefur flokknum verið lýst sem kennitölu. Er augljóst að Inga Sæland gætir hagsmuna hennar af alúð.

Sagan sýnir að í hópi þeirra sem hrópa hæst og af mestri vandlætingu um spillingu annarra eru menn, jafnvel þingmenn og fjölmiðlamenn, sem hneigjast til þess í því skyni að beina athygli frá spillingu í eigin ranni.

Í Morgunblaðinu í dag segir frá því að Flokkur fólksins hafi fengið hundruð milljóna af opinberu fé þrátt fyrir að hafa ekki uppfyllt skilyrði laga fyrir úthlutun til flokksins allt frá árinu 2021. Þannig hafi flokkurinn fengið um 240 milljónir króna frá ríki og sveitarfélögum vegna áranna 2022, 2023 og 2024.

Hvort skyldi Inga Sæland telja þetta spillingu með litlu eða stóru ess-i?