4.12.2025 10:54

Inga Sæland minnir á vald sitt

Guðmundur Kristinn er varaformaður Flokks fólksins af því að hann situr og stendur eins og Inga Sæland vill. Inga er hins vegar burðarás ríkisstjórnarinnar og þungamiðjan í valkyrjuhópnum sem hreykir sér af því að hafa öll völd.

Ráðherra hefur heimild til að auglýsa ákveðin embætti laus til umsóknar á fimm ára fresti. Hafi hann áform um það ber ráðherranum að kynna þeim sem situr í embættinu ákvörðun sína með lögbundnum fyrirvara. Sé það ekki gert situr viðkomandi embættismaður áfram í embættinu.

Þetta er skynsamleg meginregla sem leiðir til aukins aga í stjórnkerfinu. Sé reglunni beitt kann það að leiða til deilna og vissulega hefur það gerst.

Þetta eru ekki auðveldar ákvarðanir og rökin fyrir þeim verða að vera málefnaleg.

Á þetta er minnst núna í tilefni af því að fimmtudaginn 27. nóvember var Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, boðaður til fundar í mennta- og barnamálaráðuneytinu þar sem ráðherra Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, lét aðstoðarmann sinn, Ágúst Ólaf Ágústsson, og ráðuneytisstjóra, Ernu Blöndal, afhenda Ársæli bréf um að staða hans yrði auglýst laus til umsóknar en hann ekki endurskipaður án auglýsingar. Ekki var greind nein ástæða fyrir þessari ákvörðun. Leitar lögmaður Ársæls nú skýringa á henni hjá ráðuneytinu.

9460f750-c757-4793-b0f7-e5a908fdced5Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Í Morgunblaðinu í dag (4. des.) segir Ársæll þá helstu skýringu á þessu máli að í janúar sl. hafi spurst út „þetta skómál, alveg fáránlegt mál“ sem hann hafi ekki tjáð sig um hingað til en gerir í blaðinu í dag. Vegna málsins hafi hann „þurft að sitja undir lyginni í Ingu Sæland [formanni Flokks fólksins og ráðherra] endalaust“ og ákveðið að láta það yfir sig ganga. „En hún getur bersýnilega ekki hætt,“ segir hann. Ekki sé unnt annað en tengja málið Ingu og Flokki fólksins það sé „engin önnur rökrétt skýring á þessari óvæntu og óvanalegu ákvörðun“.

Í blaðinu greinir Ársæll í fyrsta sinn frá símtali við Ingu Sæland sem var þá nýorðin ráðherra.:

„Inga hringdi í janúar, ég fékk bara símann frá skiptiborðinu [í skólanum], og hún var ekki í neinu jafnvægi, byrjaði strax að hella sér yfir mig, ákaflega reið og bókstaflega öskraði í símann að það væri búið að stela glænýjum Nike-skóm af barnabarninu. Hún krafðist þess að vita hvernig á því stæði að starfsfólkið væri ekki búið að finna skóna, hvort það væru letihaugar sem ekki nenntu að vinna vinnuna sína.“

Ársæli blöskraði talsmáti Ingu og sagði henni að kæra málið til lögreglu, það væri sennilega rétti farvegurinn teldi hún um þjófnað að ræða. „Og þá sagði hún þessa fleygu setningu við mig: „Já, það er nú lítið mál fyrir mig núna því að ég hef mikil ítök í lögreglunni.“

Síðan kom í ljós að skónum hafði ekki verið stolið heldur fundust þeir í rangri hillu. „En Inga Sæland fór í fjölmiðla, neitaði öllu fyrst, en baðst svo afsökunar á einhverju og svo hætti hún að biðjast afsökunar,“ segir Ársæll. Hún hefur aldrei beðið skólameistarann afsökunar en hann telur sig nú hafa fengið kveðju frá handlöngurum hennar.

Guðmundur Kristinn er varaformaður Flokks fólksins af því að hann situr og stendur eins og Inga Sæland vill. Inga er hins vegar burðarás ríkisstjórnarinnar og þungamiðjan í valkyrjuhópnum sem hreykir sér af því að hafa öll völd.