Inga berst fyrir börnin
Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig ráðherranum tekst að vinna stefnu sinni brautargengi innan laga- og regluverksins sem smíðað hefur verið við kerfisvæðingu á málefnasviði ráðuneytisins undanfarin ár.
Inga Sæland var skelegg í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi þriðjudagsins 13. janúar þegar hún sat fyrir svörum í fyrsta sinn sem barna- og menntamálaráðherra. Hún boðaði ár læsis undir sinni forystu, óþolandi væri að 47% drengja kæmu ólæsir eða án nægilegs lesskilnings úr 10. bekk grunnskólans. Þá sagðist hún einnig vilja aðgreiningu í skólum í þágu íslenskukennslu. Gerðar væru ofurmannlegar kröfur til kennara þegar um fjölmála bekki væri að ræða.
Stjórnandi viðtalsins var ekki á sama máli og Inga. Við göngum greinilega ekki í takt hérna, sagði ráðherrann eða eitthvað á þá leið og hélt ótrauð sínu striki.
Inga Sæland í Kastjósi 13. janúar 2026.
Inga sagði stefnuna sem kennd er við byrjandalæsi og er sögð eiga íslenskar rætur á Akureyri hafa gengið sér til húðar. Hún hefði trú á stefnu sem kennd er við Vestamannaeyjar og hefur verið reynd þar í nokkur ár undir heitinu Kveikjum neistann. Þar lægi fyrir góður árangur, skýr og mælanlegur.
Það er fagnaðarefni og löngu tímabært að ráðherra menntamála hafi kjark til að taka opinberlega af skarið og láta í ljós skoðun á því hvert stefnt skuli í menntamálum.
Frá 2018 hafa menntamálaráðherrar rætt um tæknileg og kerfisleg atriði enda ástundað kerfisvæðingu skólakerfisins án samræmdra prófa, án miðlunar upplýsinga um stöðu nemenda og skóla og lagt áherslu á að til hafi orðið ný stofnun utan ráðuneytis þeirra þar sem sýslað sé með skólana og börnin. Þar sé unnið að gerð matsferils. Notkun þess hugtaks er álíka framandi fyrir aðra en innvígða eins og bókstafir í stað tölustafa við einkunnagjöf. Hvort tveggja er til þess fallið að mynda gjá á milli skóla og foreldra.
Í Morgunblaðinu í dag 14. janúar er rætt við Ingu og hún meðal annars spurð hvort hún hafi í huga að breyta aðalnámskránni um grunnskóla til að ná markmiðum sínum. Inga Sæland svarar:
„Ég vil að sjálfsögðu reyna að gera þetta í sátt og samlyndi. Við tökum þetta skref fyrir skref og byrjum á því að aðstoða þá skóla sem hafa sýnt hvað lakastan árangur. En ef það mæta mér stálin stinn og einhverjir halda það að þeir séu ráðherrann, þá mun ég ekki hika við að breyta námskrá í takt við þarfir barnanna okkar. Ég mun gera allt sem ég tel að sé satt og rétt að gera fyrir börnin. Börnin okkar eru framtíðin og þau þarfnast þess að fá rödd sem ver þau með kjafti og klóm, og það ætla ég mér að gera.“
Þarna fer ekkert á milli mála. Barátta í þágu barna er hafin í barna- og menntamálaráðuneytinu. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig ráðherranum tekst að vinna stefnu sinni brautargengi innan laga- og regluverksins sem smíðað hefur verið við kerfisvæðingu á málefnasviði ráðuneytisins undanfarin ár.
Lögin um farsæld barna eru sérkapítuli. Með þeim er búið til sannkallað bákn, barnabákn, sem enginn veit enn hvernig virkar. Athygli er þar frekar beint að þeim sem við kerfið starfa en börnunum.
Ætli nýr ráðherra að breyta um kúrs er sannarlega verk að vinna.