12.9.2020 10:45

Illkvittni blaðafulltrúa Kremlar

Pútin brást því hratt við með afsökun á dögunum þegar Alexander Vucic, forseti Serbíu, taldi að sér vegið og móðgandi.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti á fáa vini meðal ráðamanna í Evrópu. Hann hefur því lagt sig fram um að missa ekki tengsl við þá sem takast á um völd í Júgóslavíu fyrrverandi. Hafa Rússar beitt sér á ýmsan hátt til að koma ár sinni fyrir borð þar og jafnan átt dyggan stuðning ráðamanna í Serbíu.

Pútin brást því hratt við með afsökun á dögunum þegar Alexander Vucic, forseti Serbíu, taldi að sér vegið og móðgandi af Maríu Zakharovu, blaðafulltrúa rússneska utanríkisráðuneytisins, með færslu hennar á Facebook.

Í færslu sinni birti Zhakarova mynd af Vucic á fundi með Donald Trump í Hvíta húsinu, sjá hér í færslunni, og þar fyrir neðan mynd af Sharon Stone í kvikmyndinni Basic Insticts (1992) þar sem hún krossleggur fætur í yfirheyrslu. Rússneski blaðafulltrúi sagði:

„Sé þér boðið í Hvíta húsið en stólnum þínum er raðað eins og þú sért í yfirheyrslu skaltu sitja eins og gert er á mynd númer 2 [af Sharon Stone]. Sama hver þú ert. Treystu mér.“

_114327738_mediaitem114327737Alexander Vucic ræðir við Donald Trump í Hvíta húsinu.

BB18N1kl.imgSharon Stone í Basic Instics

Vucic var í Washington vegna viðræðna við Avdullah Hoti, forsætisráðherra Kósóvo, þar sem Bandaríkjamenn gegna sáttahlutverki.

Um færsluna sagði Vucic í sjónvarpsviðtali í Brussel: „Maria Zakharova talar mest um sjálfa sig, og smekkleysi og dónaskapur hennar lýsir henni sjálfri og það má guð vita þeim sem hafa hana þarna.“

Alexander Vulin, varnarmálaráðherra Serbíu, lét ekki sitt eftir liggja: „Í dag gleðjast óvinir Serba og Rússa yfir lágkúrlegri illkvittni Zakharovu.“

Þessi hörðu viðbrögð Serba höfðu greinilega sín áhrif. Þótt Zakharovu sé annað betur gefið en að draga í land gerði hún það sunnudaginn 6. september, breytti færslu sinni og baðst afsökunar. Yfirmaður hennar Sergei Lavrov utanríkisráðherra hringdi í Vucic til að friðmælast við hann.

„Mér þykir leitt að færsla mín var rangtúlkuð,“ sagði Zakharova á Facebook. Ekki hefði annað vakað fyrir sér en vekja máls á „hroka“ ráðamanna í Hvíta húsinu.

Vucic sagði í sjónvarpsviðtali í Serbíu fimmtudaginn 10. september: „Pútin forseti hefur aldrei beðið mig afsökunar á neinu og ekki heldur Sergei Lavrov. Nú gerðu þeir það báðir.“

Serbíuforseti sagðist hafa rætt við Pútin í síma, samband ríkjanna væri gott og hann teldi þetta ómerkilega atvik úr sögunni.

Hvað sem líður atvikinu sjálfu bera viðbrögð beggja forsetanna og ráðherra þeirra merki þess að ekki sé allt sem sýnist í samskiptum stjórnvaldanna. Það á örugglega við um Serba eins og aðra sem eiga náini stjórnmálasamskipti við Pútin og félaga að þeir geta tæplega um frjálst höfuð strokið. Eru í hafti af einu tagi eða öðru og eru löðrungaðir af mismiklum þunga fari þeir út af línunni.

Þannig er staðan núna í samskiptum Alexanders Lukasjenkos, einræðisherra í Hvíta Rússlandi og Pútins. Lukasjensko á ekki aðeins undir högg að sækja gagnvart eigin þjóð vegna kosningasvindls heldur herðir Pútin tökin á honum og íhugar besta tilefnið til að kasta honum á haug sögunnar.