13.7.2022 9:44

Í Trump býr fól

Morguninn eftir þennan fund hvatti Trump stuðningsmenn sína með orðsendingu á Twitter til að verða í Washington 6. janúar 2021. Hann sagði: „Be there, will be wild!“ – Verið þar, það verður tryllt!

Rannsóknin á árásinni á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021 heldur áfram í nefnd Bandaríkjaþings sem efndi til sjöunda opna fundar síns síðdegis þriðjudaginn 12. júlí 2022.

Þar kom enn fram vitnisburður sem sýndi að það sem gerðist 6. janúar var ekki á þann veg að friðsöm mótmæli hefðu farið úr böndunum og breyst í ofbeldisfulla múgæsingu heldur liður í skipulegum aðgerðum sem áttu sér margra vikna aðdraganda.

Yfirlýst markmið rannsóknarnefndarinnar er að ýta sögusögnum til hliðar með staðreyndum og er það gert með því að hlýða á vitnisburði einstaklinga sem komu að málum. Í þeim hópi eru nánir samstarfsmenn Donalds Trumps, þáverandi forseta, eða gamlir samverkamenn hans.

Á fundi nefndarinnar 12. júlí sögðu embættismenn frá fundi í skrifstofu forsetans (e. ovale office) í Hvíta húsinu að kvöldi 18. desember 2020 um sex vikum eftir forsetakosningarnar þar sem Trump tapaði fyrir Joe Biden og hratt síðan af stað áróðurs- og ofríkisherferð til að hnekkja úrslitunum með vísan til þess sem hann taldi kosningasvindl.

Https-__cdn.cnn.com_cnnnext_dam_assets_220712140224-10-jan-6-hearing-0712Frá fundi í 6. janúar rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings.

Á þessum fundi 18. desember kom til átaka milli opinberra ráðgjafa forsetans og þeirra sem ráðgjafarnir kölluðu „tryllingana“ og í voru persónulegir ráðgjafar forsetans, lögfræðingarnir Sidney Powell og Rudi Giuliani, fyrrv. borgarstjóri í New York, Michael Flynn, fyrrv. þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, og Patrick Byrne kaupsýslumaður. Þessi hópur manna lagði til við Trump að hann gæfi varnarmálaráðherranum fyrirmæli um að leggja hald á atkvæðagreiðsluvélar og skipaði sérstakan saksóknara til að semja ákærur vegna kosningalagabrota.

Þrír starfsmenn Hvíta hússins, Pat Ciponelle, lögfræðilegur ráðgjafi Trumps, Eric Herschmann, lögfræðingur og ráðgjafi forsetans, og Derek Lyons, lögfræðingur og skrifstofustjóri í Hvíta húsinu, sögðust hafa frétt af því að „tryllingarnir“ funduðu með forsetanum og þeir hefðu því einnig farið inn í skrifstofu hans.

Kom til harðra og langra orðaskipta milli hópanna tveggja, „raunsæismannanna“ og „tryllinganna“. Annar hópurinn sagði forsetann verða að virða lög og reglur hinn sagði að lög hefðu verið brotin á kjördag og forsetinn yrði að grípa til gagnaðgerða, hann þyrfti enga sérstaka lagaheimild til þess.

Morguninn eftir þennan fund hvatti Trump stuðningsmenn sína með orðsendingu á Twitter til að verða í Washington 6. janúar 2021. Hann sagði: „Be there, will be wild!“ – Verið þar, það verður tryllt!

Þessi hvatning kveikti í mörgum öfgafullum stuðningsmönnum Trumps sem hlýddu honum.

Þingnefndin hefur það hlutverk að draga saman atburðarásina og upplýsa um alla þætti árásarinnar á þinghúsið. Það er annarra að draga ályktanir og lögsækja ef svo ber undir. Að láta eins og Donald Trump hafi ekki átt hlut að þessari aðför á bandaríska þinginu og bandarískri stjórnskipun er argasta blekking. Hann er öðrum þræði fól.