Í minningu Jóns Ásgeirssonar
Ég man eftir því hvað Matthíasi Johannessen ritstjóra þótti mikils virði að hafa viðurkennt og virt tónskáld eins og Jón sem gagnrýnanda við blaðið. Það yki hróður þess, trúverðugleika og heimildargildi.
Jón Ásgeirsson tónskáld kvaddi þennan heim föstudaginn 21. nóvember, 97 ára að aldri.
Jón samdi fyrstu íslensku óperuna í fullri lengd, Þrymskviðu, sem frumflutt var á þjóðhátíðarárinu 1974. Var viðburðurinn tengdur 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og liður í listahátíð í Reykjavík. Guðrún Á Símonar var í hlutverki Freyju, viðtökur voru góðar.
Óperan hefur ekki verið sett aftur á svið enda stór í sniðum. Við sem sáum hana á sviði gleymum sýningunni ekki.
Í tilefni af 90 ára afmæli Jóns í október 2018 var ný endurgerð óperunnar frumflutt en Jón hafði þá bætt hana og breytt. Tónleikarnir voru í Norðurljósasal Hörpu. Þrymskviða lifir sem menningarlegt og sögulegt lykilverk og sannar að bóklegum menningararfi okkar má breyta í dramatískt tónverk.
Sönglög Jóns hafa fylgt Íslendingum um áratugaskeið. Má þar nefna Maístjörnuna, Augun mín og augun þín, Vor hinsti dagur og Hjá lygnri móðu.
Jón Ásgeirsson var mikilvirkur tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins í rúma þrjá áratugi frá árinu 1970. Hann sótti tónleika af mikilli elju og birtust oft fleiri en ein hnitmiðuð umsögn eftir hann í sama tölublaðinu.
Ég man eftir því hvað Matthíasi Johannessen ritstjóra þótti mikils virði að hafa viðurkennt og virt tónskáld eins og Jón sem gagnrýnanda við blaðið. Það yki hróður þess, trúverðugleika og heimildargildi.
Jón Ásgeirsson
Vegna starfa minna við blaðið kynntist ég Jóni og minnist heimsókna hans á ritstjórnina þar sem hann dró ávallt að sér athygli, vakti gleði og umræður um málefni líðandi stundar, fréttir og stjórnmál. Naut ég þeirra kynna sem vináttu Jóns eftir að leiðir okkar lágu ekki lengur saman á Morgunblaðinu.
Ég tek undir orð Orra Páls Ormarssonar blaðamanns í Morgunblaðinu/Sunnudagsblaði 29. nóvember:
„Það þurfti aldrei að segja manni að Jón væri kominn í hús; maður fann það bara á orkunni. Nú eða dillandi hlátrinum. Þetta var jákvæð, uppbyggileg og hlý orka enda stafaði hún frá manni sem hafði ofboðslega gaman af því að vera til. Það lyftist allt þegar Jón kom í heimsókn og öll verk urðu einhvern veginn léttari. Sú náðargáfa er fáum gefin.“
Hér skal vitnað í umsögn Jóns um píanótónleika Rögnvaldar Sigurjónssonar í Þjóðleikhúsinu en hún birtist í Morgunblaðinu 11. október 1978:
„Tækni hans [Rögnvaldar] er af þeirri stærð, sem skipar honum í flokk með heimspíanistunum en um leið ber hún svip þeirra örlaga að vera sonur lítillar þjóðar, sem ekki kann né getur búið honum skilyrði til að þroska hæfileika sína til hins ýtrasta.“
Velgengni Víkings Heiðars Ólafssonar og sigurganga sýna að í breyttu starfsumhverfi er íslenskum píanóleikara fagnað í frægustu tónleikasölum og með fremstu hljómsveitum. Þar er reist á góðum grunni og fyrirmyndum á heimavelli.
Sama má segja um íslensk tónskáld og viðurkenningu á verkum þeirra utan landsteinanna. Í liðinni viku flutti til dæmis Radio France Philharmonic Orchestra í beinni útsendingu á Arte verkið sea sons seasons eftir íslenska tónskáldið Báru Gísladóttur. Var henni vel fagnað þegar hún steig á svið tónlistarsalar franska útvarpsins í París.
Pascal Rophé stjórnaði hlómsveitinni sem flutti auk verks Báru sinfóníu eftir Luciano Berio og Fünf frühe Lieder eftir Gustav Mahler. Upptöku á tónleikunum má sjá á vefsíðu og appi Arte.