4.7.2023 8:08

Í Húnaþingi vestra

Dagurinn var fyrsti þurrkdagurinn eftir langa vætutíð og bændur töldu að sjálfsögðu skynsamlegra að sitja á heyvinnslutækjum sínum en á samtalsfundi með okkur.

Dagurinn í Húnaþingi vestra var í fylgd sr. Magnúsar Magnússonar, sóknarprests og formanns byggðaráðs, sem veitti okkur ómetanlega leiðsögn.

Við hittum fyrst Davíð Gestsson, framkvæmdastjóra Sláturhúss KVH á Hvammstanga, sem á viðskipti við bændur langt út fyrir héraðið. Var mikils virði að kynnast sjónarmiðum fulltrúa afurðastöðvanna til að fylla út í heildarmyndina.

Magnús Barðdal, verkefnisstjóri fjárfestinga hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), kynnti okkur á fjarfundi áform um skógarplöntuframleiðslu í Húnaþingi vestra. Talið er að árlega þurfi að framleiða 25 milljón skógarplöntur hér á landi til að standa undir áformum um kolefnisbindingu. Nú er ársframleiðan 6 milljónir plantna. Í þremur áföngum er stefnt að 15 milljón plantna framleiðslu í Húnaþingi vestra.

IMG_7580Hlédís, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Birgir Magnússon og Magnús Magnússon í tamningaskálanum á Bessastöðum.

Á Bessastöðum á Heggstaðanesi á milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar búa hjónin Guðný Helga Björnsdóttir og Jóhann Birgir Magnússon.

IMG_7576Lítill hluti verðlaunagripa í gestastofunni á Bessastöðum.

Þau hafa lagt fyrir sig búvísindi og látið að sér kveða við hvers kyns ræktunarstarf, þar á meðal á hrossum og náð frábærum árangri eins og við blasti þegar við sáum alla verðlaunagripina í gestastofu þeirra.

Við ræddum meðal annars landnýtingarmál sem eru öllum hjartfólgin sem kynna sér íslenskan landbúnað, framtíð hans og tækifærin til að tryggja byggðafestu. Megintilgangur verkefnis okkar Hlédísar Sveinsdóttur er að greina þessi tækifæri.

IMG_7583Ingveldur Ása Konráðsdóttir á hundahótelinu Hólakoti.

Frá Bessastöðum fórum við í Vestur-Hóp að Hólakoti, hundahóteli sem tók til starfa apríl 2022 undir stjórn Ingveldar Ásu Konráðsdóttur, búfræðings frá Hvanneyri, þroskaþjálfara frá Háskóla Íslandsáskóla og með réttindi í gegnum IACP, alþjóðleg samtök hundaþjálfara.

Deginum lauk með samtalsfundi í safnaðarheimilinu á Hvammstanga. Þangað komu hins vegar færri en ætluðu vegna þess að dagurinn var fyrsti þurrkdagurinn eftir langa vætutíð og bændur töldu að sjálfsögðu skynsamlegra að sitja á heyvinnslutækjum sínum en á samtalsfundi með okkur.

Þeir sem sóttu fundinn miðluðu mikilvægum fróðleik sem nýtist okkur.