29.1.2023 10:28

Í Hörpu - tónleikar

Laugardaginn 28. janúar var lokadagur Myrkra músikdaga þar sem í viku er kynnt nútímatónlist og mörg tónverk frumflutt eftir innlend tónskáld og erlend.

Einstakir tónleikar voru í Eldborg Hörpu að kvöldi föstudags 27. janúar þegar fiðlusnillingurinn Anne-Sophie Mutter og strengjasveit hennar ásamt semballeikara, Mutter Virtuosi, komu þar fram.

Anne-Sophie kom hingað fyrst 22 ára fyrir 37 árum. Þá var Sigurður Björnsson óperusöngvari framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Við sátum hlið við hlið á tónleikunum í Eldborg og rifjaði Sigurður upp að það hefði haft nokkurn aðdraganda 1985 að fá Anne-Sophie hingað og hefði hann meðal annars farið til fundar við föður hennar í Sviss til að fá samþykki hans við því að dóttir hans legði í Íslandsferðina. Nú að tónleikunum loknum ætlaði Sigurður að fara baksviðs og rifja upp gömul kynni en öryggisvörður hússins sagði ströng fyrirmæli um bann við öllum mannaferðum gesta að tjaldabaki eftir tónleikana.

Meðal verka á tónleikadagskránni voru Árstíðirnar eftir Vivaldi. Blæbrigðaríkur flutningurinn var eins og hlustað væri á tónsmíðina í nýjum búningi, hver nóta var þó á sínum gamla og rétta stað og við engu hreyft. Magnað.

Daginn eftir, laugardaginn 28. janúar var lokadagur Myrkra músikdaga þar sem í viku er kynnt nútímatónlist og mörg tónverk frumflutt eftir innlend tónskáld og erlend.

Hér eru myndir frá tvennum tónleikum þennan laugardag og auk þess nokkrar myndir úr Hörpu, því glæsilega húsi.

IMG_6449Síðdegis laugardaginn 28. janúar efndi triíó skipað Ísaki Ríkharðssyni fiðluleikara, Hyazinthu Andrej sellóleikara og Stefan Kägi píanóleikara til tónleika í Kaldalóni í Hörpu undir heitinu: Ballett á tunglinu. Þarna eru þau ásamt  sögumanninum Mirian Khukhunaishvili að flytja verkið Présence, ímyndaðan ballett, eftir Bernd Alois Zimmermann (1918-1970).

IMG_6463Kammersveit Reykjavíkur flutti lokatónleika Myrkra músikdaga í Norðurljósasal Hörpu að kvöldi laugardags 28. janúar. Þar var meðal annars frumfluttur konsertinn AUX fyrir bassaklarinett og kammersveit eftir Huga Guðmundsson sem er á miðri mynd við hyllingu áhorfenda í lokin. Honum á hægri hönd er Rúnar Óskarsson með bassaklarinettið, verkið var samið fyrir hann. Lengst til hægri er Christian Eggen stjórnandi frá Osló.

IMG_6453IMG_6467

IMG_6470_1674988347229IMG_6468_1674988254894IMG_6458