3.10.2025 11:15

Hvorki stríð né friður

Þessi áhugi og vaxandi þekking á þeim viðfangsefnum sem við er að etja í alþjóða- og öryggismálum endurspeglar mjög það sem birtist í fréttum frá degi til dags.

Í nokkur ár hef ég kynnt sjónarmið mín og þróun öryggismála á námskeiði í Háskóla Íslands þar sem nemendur eru bæði íslenskir og erlendir.

Það vakti athygli mína að þessu sinni hve margar hendur komu á loft eftir að ég hafði lokið máli mínu og síðan hve spurningarnar báru vott um mikinn áhuga á því sem gerist á þessu sviði hér og erlendis.

Þessi áhugi og vaxandi þekking á þeim viðfangsefnum sem við er að etja í alþjóða- og öryggismálum endurspeglar mjög það sem birtist í fréttum frá degi til dags.

Líklegt er að áhugamenn um þessi málefni reiði sig meira á erlenda miðla en innlenda til að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Íslenskir miðlar leggja ekki sömu áherslu og áður á miðlun erlendra frétta af því sem gerist í nærumhverfi okkar á þann veg að neytendur þeirra fái þá heildarsýn sem þarf til að sjá samhengi hlutanna.

Munurinn á fréttamiðlun ríkisútvarpsins hér um öryggis- og varnarmál og því sem sagt er frá í danska ríkisútvarpinu um þessi mál er sláandi.

Danir hafa lagt hlutfallslega mest allra þjóða af mörkum til stuðnings Úkraínu. Þeir hafa jafnan verið tilbúnir til að senda hermenn á vettvang þegar kallað er á vestræna þátttöku í hernaðarlegum friðaraðgerðum. Danir þora að taka afstöðu og sýna hana í verki.

Hér er annað oftast uppi á tengingunum. Þrátt fyrir aðild að NATO, varnarsamninginn við Bandaríkin og óteljandi sameiginleg hernaðarleg verkefni með bandamönnum okkar tala ótrúlega margir eins og við séum hlutlaus þjóð og á öðrum stalli en aðrir. Ekki sé sæmandi fyrir okkur að senda annað en hjúkrunargögn eða ábreiður og ullarsokka til þeirra sem berjast fyrir eigin lífi, þjóðar sinnar og lýðræðislegum gildum.

Screenshot-2025-10-03-at-11.13.14Emmanuel Macron, Mette Frederiksen, Friedrich Merz og Donald Tusk á fundi í Kaupmannahöfn 2. október 2021.

Sé ólík afstaða Dana og Íslendinga að þessu leyti skoðuð verður niðurstaðan sú að danskir fjölmiðlar segi mun betri, ítarlegri og skiljanlegri fréttir af þróun öryggis- og varnarmála en íslenskir.

Í danska ríkissjónvarpinu eru reglulega um 30 mínútna fréttaþættir þar sem herfræðingar og herforingjar skýra framvindu stríðsins í Úkraínu. Í sömu umgjörð hefur verið rætt um fjölþáttaógnir, dróna og annað, sem beinast að Danmörku. Þetta er gert án tilfinningahita eða siðferðilegra áherslna. Matið er kalt og yfirvegað enda viðmælendurnir sérfræðingar eða herforingjar og fréttamennirnir ekki síður vel að sér og fordómalausir.

Ummæli evrópskra ráðamanna eru ekki síður alvöruþrungin um þessar mundir. Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana segir að land sitt hafi orðið fyrir fjölþáttaárás. Friedrich Merz Þýskalandskanslari hefur sagt: „Við eigum ekki í stríði en við búum ekki heldur lengur við frið“. Donald Tusk forsætisráðherra Póllands lýsti núverandi árekstrum milli Evrópu og Rússlands sem „nýrri tegund stríðs“.

Manningham-Buller barónessa, sem stjórnaði bresku leyniþjónustunni MI5 til 2007, sagði að ef til vill værum „við nú þegar í stríði við Rússa. Annars konar stríði en fjandskapurinn, netárásirnar, líkamlegar árásir og njósnirnar eru víðtækar.“

Sé alið á því hér að við séum stikkfrí vakna menn fyrr en síðar upp við vondan draum. Spurningarnar sem ég fékk frá nemendunum í HÍ snerust einkum um það hvers vegna hér væri ekki gripið til markvissra aðgerða til að auka öryggið.