22.12.2018 10:36

Hvítþvottur Dags B. hafinn

Tilgangurinn er að drepa málinu á dreif á „fræðilegum“ grunni í þágu borgarstjóra.

Augljóst er stjórnsýsla Reykjavíkurborgar vegna braggamálsins í Nauthólsvík var í molum. Ábyrgðin á stjórnsýslunni hvílir á Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Í Morgunblaðinu í dag (21. desember) er rætt við Evu Marín Hlynsdóttur stjórnmálafræðing um stöðu borgarstjóra í ljósi þessara augljósu brota. Hún segir:

„Þetta snýr annars vegar að því að sækja fólk til ábyrgðar pólitískt og hins vegar til ábyrgðar lagalega. Til að fólk taki pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum þyrfti það í raun að segja af sér. Ég á hins vegar erfitt með að tjá mig um þetta einstaka tilvik og þyrfti að skoða það betur.“

Þetta eru sérkennileg ummæli og þau falla án þess að stjórnmálafræðingurinn hafi kynnt sér málið! Tilgangurinn er að drepa málinu á dreif á „fræðilegum“ grunni í þágu borgarstjóra. Ekki tekur betra við þegar stjórnmálafræðingurinn kýs að réttlæta virðingarleysið fyrir stjórnsýslulögunum með þessum orðum:

„Stjórnsýsla á sveitarstjórnarstigi er tiltölulega ung og því ekki sama fagþekking og formfesta og þekkist hjá ríkinu. Það á eftir að formgera stjórnsýslu sveitarfélaga betur því þetta kerfi býður upp á það að við getum lent í svona vanda. Þar á ég við það að oft á tíðum vantar upplýsingar um samskipti milli fólks þegar ákvarðanir eru teknar.“

Fullyrðingin um að „tiltölulega unga“ stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi til skýringar á þessum vinnubrögðum er fráleit.

ArchivesRannsóknin á bragga-málinu leiddi í ljós að lög um varðveislu opinberra skjala voru þverbrotin.

Stjórnendur Borgarskjalasafnsins taka af skarið á vefsíðu sinni og segja að það komi „fram með afar skýrum og áberandi hætti að lög og reglur um skjalastjórn opinberra stofnana voru þverbrotnar“ í bragga-málinu.

Fá eða nokkur skjöl finnast um málið hjá Reykjavíkurborg, tölvubréfum hefur verið eytt og tölva borgarstjóra er óskoðuð. Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður segir í Morgunblaðinu í dag þegar hún er spurð hvort refsing sé við því að brjóta lög um opinber skjalasöfn: „Þar segir í 47. gr að það geti varðað allt að þriggja ára fangelsi að hafa ekki skráningu mála, flokkun og frágang skjala í samræmi við reglur.“

Borgarráð Reykjavíkur kom saman fimmtudaginn 20. desember og ræddi bragga-skýrslu innri endurskoðunar. Í fundargerð er bókað: „Borgarráð felur borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarráðsfulltrúa [Sjálfstæðisflokksins] að móta tillögur að viðbrögðum við skýrslu innri endurskoðunar.“

Að brugðist skuli við skýrslu sem felur í sér fullyrðingar um lögbrot æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar með því að skipa Dag B. Eggertsson borgarstjóra formann nefndar um viðbrögð við skýrslunni gerir illt verra. Að minnihluti borgarstjórnar taki þátt í slíkum skrípaleik til að hvítþvo borgarstjóra er með ólíkindum.