17.8.2020 10:18

Hvíta-Rússland og Belarús

Ann Linde segir að heitið Belarus sé nú notað sem viðurkenning á þjóð sem hafi lengi viljað árétta sjálfstæð sérkenni sín og fullveldi lands síns.

Brynjólfur Erlingsson spyr Facebook-hópinn Fjölmiðlanörda í dag (17. ágúst):

„Hvíta-Rússland. Núna er þetta land mikið í fréttum og því góður tími til að spjalla aðeins um þetta nafn sem við, ásamt fleirum, höfum gefið landinu. Orðið Belarus þýðir hvíta „Rus“. Algeng mistúlkun á Rus er víst að þetta tengist Rússlandi en svo er víst ekki og er þetta meira tengt slavískum og austur-Evrópskum ættbálkum, allavegana er það skýringin sem er gefin í dag. Mörg lönd hafa því hætt nýlega að nota nafnið Hvíta-Rússland, þ.á.m Svíþjóð, Frakkland og fleiri lönd til að styðja sjálfstæði landsins og hefur það gengið ágætlega. Væri ekki gaman ef það sama yrði gert á Íslandi?“

Með þessari athugasemd sinni birtir Brynjólfur frétt frá opinberri fréttastofu Hvíta-Rússlands, BelTA, frá 25. nóvember 2019 þar sem sagt er frá því að sænska utanríkisráðuneytið hafi ákveðið að nota Belarus í stað Hvíta-Rússlands. Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, hafi skýrt frá þessu í grein í Dagens Nyheter.

Fréttamaður BelTA ræðir við sænska utanríkisráðherrann að þessu tilefni en hún heimsótti Minsk með finnska starfsbróður sínum Pekka Haavisto í nóvember 2019. Ann Linde segir að heitið Belarus sé nú notað sem viðurkenning á þjóð sem hafi lengi viljað árétta sjálfstæð sérkenni sín og fullveldi lands síns.

Í samtalinu minnir sænski utanríkisráðherrann á að Belarus eigi 900 km löng sameiginleg landamæri með ESB-löndum og stysta vegalengd milli Svíþjóðar og Belarus sé 500 km. Hún segir sænsk stjórnvöld vilja aðstoða ráðamenn í Minsk við umbætur á stjórnarháttum í því skyni að bæta líf fólks í Belarus.

Belarus-city_hpMain_20200816-180259_16x9_1600Frelisgangan í Minsk sunnudaginn 16. ágúst.

Sænski utanríkisráðherrann segist sammála ráðamönnum í Belarus um að grunnreglur um samskipti ríkja eins og þær eru mótaðar í Öryggissamvinnustofnun Evrópu (ÖSE) séu virtar. Með þær að leiðarljósi sé stuðlað að „stöðugleika í öryggismálum á okkar svæði,“ segir sænski ráðherrann.

Þessi ummæli Ann Linde fá nýtt gildi núna þegar vaxandi óvissa er um hvaða stefnu Alexander Lukasjenko, forseti Belarus, tekur vegna þungans í kröfu þjóðar hans um að hann segi af sér. Kalli hann á hjálp frá Vladimir Pútin til að brjóta vilja almennings á bak aftur er kannski ótímabært að velta fyrir sér heiti á landinu sem hann hefur stjórnað frá 1994 þegar skilin urðu milli Rússlands og Belarus við upplausn Sovétríkjanna.

Íslensk málstöð birtir lista yfir landaheiti á íslensku og þar stendur: Hvíta-Rússland – Hvít-Rússar – hvítrússneskur. Ætti að standa: Belarús – Belarúsar – belarúsneskur? Hvers vegna ekki?

Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, færði í málfarsdálki Morgunblaðsins 4. apríl 2020 rök fyrir að lýsa ætti kórónuveirunni kórrétt með orðinu COVID-19. Í Reykjavíkurbréfi 15. ágúst 2020 sagði hins vegar: „Á tímum kórónuveiru (tilgerðarmenn kalla hana Covid-19!)“

Það er vandratað um refilstigu móðurmálsins. Hvað með Belarús? Er það líka tilgerðarorð?