Hvammsvirkjun í hlekkjum
Með velvild má kalla það mistök hjá þingnefndinni að girða fyrir allar vatnsaflsvirkjanir. Þó er hugsanlegt að andstæðingar virkjana hafi komið þessu ákvæði í lögin.
Héraðsdómari í Reykjavík ákvað 15. janúar 2025 að fella yrði úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá vegna þess að Umhverfisstofnun hefði ekki mátt veita leyfi til breytinga á vatnshloti í Þjórsá sem stöfuðu af virkjunarframkvæmdunum en ekki af mengun eða loftslagsbreytingum.
Ákvæði er um þetta í lögum frá 2011. Steinunn Pálmadóttir, lögfræðingur Landsvirkjunar, bendir á í Morgunblaðinu í dag (18. janúar) að EES-reglur um þetta séu alveg skýrar, veita megi undanþágu til dæmis vegna virkjunarframkvæmda en með orðalagsbreytingu hafi nefnd alþingis þrengt ákvæðið.
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði við Morgunblaðið í gær að yrði ekki gripið til sérstakra ráðstafana af hálfu ríkisstjórnar og alþingis vegna þessa dóms gæti hann frestað framkvæmdum við virkjunina um eitt til tvö ár. Fyrir ári hefðu Samtök iðnaðarins lagt mat á fjártjón vegna skerðingar á raforku til stórnotenda, tjón vegna tapaðra útflutningstekna hefði numið 14-17 milljörðum króna á ári.
Á Vísi segir frá því föstudaginn 17. janúar að Umhverfisstofnun hafi með tveimur minnisblöðum, árið 2019 og aftur um mitt ár 2024, varað umhverfisráðuneytið við óvissu í leyfisveitingu stofnunarinnar vegna slíkra vatnasvæða. Það þurfi lagabreytingu til að eyða óvissunni. Þá hafi minnisblað sama eðlis borist til ráðuneytisins frá sérfræðingi í málinu árið 2022.
Skýringarmynd Landsvirkjunar af Hvammsvirkjun
Lögfræðingur Landsvirkjunar kennir breytingu þingnefndarinnar á tilskipun EES við gullhúðun, það er að íslenski löggjafinn hafi gengið lengra við innleiðingu reglnanna en efni þeirra sagði. Á nýliðnu kjörtímabili lét umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið einmitt gera sérstaka úttekt á verksviði sínu í því skyni að afmá gullhúðunina af lögum þar. Hér skal ekki sagt hvort við þá athugun hafi kviknað á viðvörunarljósum um hættuna sem steðjaði að framkvæmdum við Hvammsvirkjun. Ráðuneytið var kannski þeirrar skoðunar að þar væri hætta á ferðum.
Þetta er fortíðin, skaðinn er skeður og við honum verður að bregðast. Það verður ekki gert með ásökunum vegna þess sem áður gerðist, dómurinn féll ekki fyrr en 15. janúar.
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum 17. janúar að þing kæmi saman þriðjudaginn 4. febrúar enda má það ekki seinna vera samkvæmt stjórnarskránni.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segist ætla að setjast yfir minnisblöð vegna Hvammsvirkjunar í næstu viku. Hann ætti frekar að setjast yfir tillögur að lagabreytingum til að leiðrétta það sem alþingismenn gerðu á sínum tíma. Nauðsynleg leiðrétting er jafnvel tilefni til bráðabirgðalaga.
Með velvild má kalla það mistök hjá þingnefndinni að girða fyrir allar vatnsaflsvirkjanir. Þó er hugsanlegt að andstæðingar virkjana hafi komið þessu ákvæði í lögin. Þingmenn sem komu að afgreiðslu frumvarpsins ættu að skýra frá meðferð málsins en Mörður Árnason (Samfylkingu) var formaður umhverfisnefndar á þessu þingi.
Til að losa Hvammsvirkjun úr viðjum regluverksins eftir að hafa velkst áratugum saman í kerfinu ætti nú að setja sérstök lög um hana.