Húsnæðisstefna í molum
Hafi einhver sem hugleiðir kaup á húsnæði setið yfir Silfrinu í von um að fá einhverja haldfasta leiðbeiningu við töku ákvörðunar sinnar hlýtur hann að hafa orðið fyrir vonbrigðum.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði á alþingi 23. október: „Eitt af því sem er núna á áætlun er að við munum kynna til að mynda aðgerðir í húsnæðismálum bara á allra næstu dögum til að taka á vandræðum sem snúa að þenslunni á húsnæðismarkaði og það eru haldbærar tillögur.“
Kynningin á þessum tillögum fór fram miðvikudaginn 29. október og þá sögðu ráðherrar að þetta væri „fyrsti húsnæðispakkinn“.
Miðað við „verkstjórnina“ og áhersluna á „samtalið“ við þjóðina hefði mátt ætla að þessi pakki væri þannig úr garði gerður að auðvelt væri að átta sig á efni hans og afleiðingum.
Strax að kvöldi 29. október þegar Kristrún sat fyrir svörum í vinsamlegu drottningarviðtali í Kastljósi kom í ljós að bæði hún og gagnrýnislaus spyrjandi áttu fullt í fangi með að skilgreina innihald pakkans hvað þá frekar að skýra áhrif hans fyrir öðrum. Við bættist síðan algjör óvissa í vaxtamálum.
Silfrið 3. nóvember 2025. Gestir Valgeirs Arnar voru Sigurður Hannesson, Halla Gunnarsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Már Wolfgang Mixa.
Fréttastofa ríkisútvarpsins gerði aðra vinsamlega tilraun til að kynna pakkann, áhrif hans og afleiðingar í Silfrinu að kvöldi mánudagsins 3. nóvember. Misheppnaðri sjónvarpsþátt og leiðinlegri er varla unnt að ímynda sér. Hefði hann verið sýndur sem grínþáttur hefði kannski mátt brosa vegna spurninga og svara. Öllum var hins vegar fúlasta alvara í þættinum. Viðfangsefnið, lausn húsnæðisvandans með vísan til tillagna ríkisstjórnarinnar og vaxtamála, var hins vegar of erfitt og flókið.
Hafi einhver sem hugleiðir kaup á húsnæði setið yfir Silfrinu í von um að fá einhverja haldfasta leiðbeiningu við töku ákvörðunar sinnar hlýtur hann að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Hvort það var ómarkviss og illa ígrunduð stjórn á þættinum eða eitthvað annað sem réð því að áhorf á þáttinn var hrein tímasóun skal ósagt látið.
Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, var ekki krafin svara um hvernig hún ætlar að koma 4.000 íbúðum fyrir í hverfi sem skipulagt er fyrir 2.000 íbúðir í Úlfarsárdalnum. Þess í stað fimbulfambaði hún um að nú þyrfti að bretta upp ermar og hugsa þetta frá grunni. Frumleikinn birtist í þessum orðum:
„En ég held að við þurfum að tala um bleika fílinn í herberginu sem er gjaldmiðillinn okkar. Það er ekki alltaf stemning fyrir því en ég held að fólk sé bara komið með nóg.“
Þetta er flóttaleið þeirra sem hafa ekkert til málanna að leggja. Dóra Björt velur hana með Degi B. Eggertssyni, fyrrverandi leiðtoga sínum í borgarstjórn. Evran sem hann lofar með lágum vöxtum yrði raunhæfur kostur 8 til 10 árum eftir að aðildarviðræður við ESB sigldu af stað, sem hugsanlega gerist árið 2028.
Kristrún Frostadóttir svaraði spurningum um húsnæðispakkann og vaxtamál á alþingi mánudaginn 3. nóvember og sagði: „Við erum fyrst og fremst að auka framboð, lækka verð og auka stöðugleika á íslenskum húsnæðismarkaði.“
Viðbrögðin eru þveröfug. Það er svo illa staðið að verkstjórninni við framkvæmd þess sem ríkisstjórnin segist gera í þessum málum að það er meira að segja húsnæðismálaráðherranum, Ingu Sæland, um megn að skilja það og skýra.