Húsamygla gegn þjóðaröryggi
Á meðan ekki er sköpuð aðstaða fyrir samhæfingarmiðstöð á nýjum stað og sambýli þeirra sem að henni koma er skipulega vegið að áfallaþoli þjóðarinnar.
Fyrir þá sem unnu að því að stilla saman strengi neyðar- og viðbragðsaðila í landinu með því að koma á fót samhæfingar- og stjórnstöð viðbragðsaðila almannavarna við Skógarhlíð í Reykjavík er þungbært að lesa í Morgunblaðinu í dag (24. janúar) lýsingu Jóns Svanbergs Hjartarsonar, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, á því hvernig skortur á viðunandi húsnæði ógnar samhæfingarstarfinu. Jón Svanberg segir:
„Með tilkomu Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð og veru allra helstu viðbragðsaðila þar sem og með uppbyggingu samhæfingarstöðvarinnar var lyft grettistaki sem á þeim tíma var hvorki sjálfsagt né sjálfgefið. Þetta módel hefur svo margsannað sig í gegnum tíðina og þar yrði hræðileg afturför ef horfið yrði frá því fyrirkomulagi sem hefur tekið nær 30 ár að byggja upp. Verkefnin og náttúran munu allavega ekki laga sig að því, svo mikið er víst.“
Áfangarnir á leiðinni að því marki að samþætta starf allra viðbragðaðila voru margir. Til margra þátta varð að líta.
Í júní 2004 var til dæmis gerður samningur milli Landhelgisgæslunnar, Neyðarlínunnar og Slysavarnafélagsins Landsbjargar annars vegar og Siglingarstofnunar hins vegar um rekstur og fyrirkomulag vaktstöðvar siglinga. Þar með lauk breytingum á skipulagi vaktþjónustu og fyrirkomulagi leitar- og björgunarmála á sjó, landi og í lofti, sem hófust með uppsetningu vaktstöðvar Neyðarlínunnar hf., stjórnstöðvar lögreglunnar og samræmingarstöðvar Almannavarna um leit og björgun í byggingunni við Skógarhlíð.
Nú hefur húsamygla og annað leitt til þess að sambýli lykilaðila að samhæfingarmiðstöðinni hefur splundrast og lýsir Jón Svanberg stöðunni á þennan veg:
„Stóra ógnunin í þessu er sú að ef það kemur upp brátt neyðarástand þar sem virkja þarf samhæfingarstöðina, þá er hún ekki á sama stað og þeir sem þurfa að sinna fyrsta viðbragðinu. Það er mjög bagalegt og í rauninni þjóðaröryggismál svo maður tali hreint út. Það skiptir líka miklu máli að þegar menn fara svona sitt í hvora áttina þá dofna tengslin sem gerir einnig að verkum að allt verður þyngra í vöfum.“
Ríkissjónvarpið boðar umræður á Torginu í næstu viku um það sem nú er kallað áfallaþol þjóðarinnar. Þar er vísað til getu ríkisvaldsins til að bregðast við hvers kyns hættuástandi og hvernig þjóðin er búin undir slíkt ástand og viðbrögð við því. Annars staðar á Norðurlöndunum eru nú gerðar stórtækar ráðstafanir til að auka áfallaþolið.
Að sjálfsögðu verður að sjá til þess að húsrými sé viðunandi fyrir lykilaðila við stjórn á hættustundu og að þannig sé staðið að ytri umgjörð að hún stuðli að samstarfi en ekki sundrungu. Í Morgunblaðinu segir að ekki liggi neinar ákvarðanir fyrir um úrlausn húsnæðismálanna og líklega líði misseri þar til viðunandi aðstaða skapist í stað þess sem var við Skógarhlíðina.
Á meðan ekki er sköpuð aðstaða fyrir samhæfingarmiðstöð á nýjum stað og sambýli þeirra sem að henni koma er skipulega vegið að áfallaþoli þjóðarinnar.