22.12.2025 9:48

Hughreysting Kristrúnar

Að stjórn landsins sé reist á vináttu forsætisráðherra við formenn Viðreisnar og Flokks fólksins vekur ekki traust. 

Það er holur hljómur í því hvernig Kristrún Frostadóttir talar um stjórnarsamstarfið í tilefni eins árs afmælis þess. Hún ber sig þó vel og segist ánægð með samstarfið við þær Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland. Fréttastofa ríkisútvarpsins hringdi í Ólaf Þ. Harðarson, prófessor emeritus, til að blása kjarki í stjórnarsinna með vísan til skoðanakannanna.

Kristrún getur enn treyst á að Ólafur Þ. og aðrir álitsgjafar túlki henni allt í haginn. Þeir mótuðu almenningsálitið á liðnu vori fyrir beitingu kjarnorkuákvæðisins á alþingi til að þagga niður í stjórnarandstöðunni í stað þess að samið yrði um skynsamlega niðurstöðu í veiðigjaldsmálinu.

Orðljóti þingforsetinn  situr enn í embætti sínu í skjóli forsætisráðherrans og meirihlutans á þingi. Forsetavaldið er hins vegar orðið að engu. Hótanir um að kjarnorkuákvæðinu verði beitt aftur eru álíka innan tómar og lýsingar forsætisráðherrans á ágæti stjórnarsamstarfsins.

1617959Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Að stjórn landsins sé reist á vináttu forsætisráðherra við formenn Viðreisnar og Flokks fólksins vekur ekki traust. Formaður Viðreisnar sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn þar sem hún hafði risið til æðstu metorða af því að hún fékk ekki uppfylltar allar óskir sínar við endurkomu í pólitík eftir hrunið. Formaður Flokks fólksins hrakti þingmenn úr liði sínu af því að þeir vildu upplýsingar um hvernig staðið væri að fjárvörslu innan flokksins. Nú hefur Inga Sæland tekið öll ráðuneyti flokksins undir sína stjórn af því að hún treystir engum.

Kristrún Frostadóttir skrifaði afmælisgrein um stjórn sína á Vísi 21. desember undir fyrirsögninni: Samstiga ríkisstjórn í sigri og þraut og kjarni hennar er þessi:

„Á milli okkar Þorgerðar og Ingu ríkir sérstakt traust og vinátta. Og það er full málefnaleg samstaða á milli stjórnarflokka um stefnuyfirlýsinguna skorinortu sem við skrifuðum undir í Hafnarfirði fyrir ári. Þetta skiptir máli og er góðs viti fyrir framhaldið.“

Fyrirsögnina má túlka þannig að myndun stjórnarinnar hafi verið sigur en það sé þrautin þyngri að stjórna, þær ætli þó að gera það saman í anda sérstaks trausts og vináttu og á grunni stjórnarsáttmálans.

Í tíð ríkisstjórnarinnar hefur ekkert gerst á við hrun fjármálakerfisins, heimsfaraldurinn, jarðhræingarnar á Reykjanesi eða innrásina í Úkraínu og fyrstu áhrif hennar. Við öllu þessu var brugðist á þann veg að þjóðarbúinu var borgið og aldrei horfið frá markmiðinu um farsæld og bætt lífskjör.

Þraut forsætiráðherrans er að á einu ári hafi flugfélag orðið gjaldþrota, álver stöðvast að hluta og veiðiheimildir dregist saman. Af þessu tilefni segir hún að nokkuð hafi „borið á úrtöluröddum sem nýta tækifærið við hverja þraut til að hvetja ríkisstjórnina til að hverfa af leið“. Mjög hafi „verið þrýst á stjórnarmeirihlutann að falla frá aðgerðum og erfiðum ákvörðunum“ sem væru til þess fallnar að laga afkomu ríkisins. Og síðan kveinkar hún sér:

„En hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Við megum ekki bogna þó á móti blási.“

Hvern er forsætisráðherrann að hughreysta með þessum orðum? Það hljóta að vera einhverjir í hennar eigin liði sem eru að þrotum komnir.