Hugarró í snjóflóði
Hugarró Ölmu Sóleyjar þegar hún sagði sögu sína var aðdáunarverð og einnig fullvissa móður hennar, Önnu Sigríðar Sigurðardóttur, um að dóttur hennar yrði bjargað.
Myndin sem birtist á Facebook-síðu minni mánudaginn 13. janúar fékk meiri útbreiðslu á þeim vinsæla samfélagsmiðli en nokkurt efni sem þar hefur birst frá mér. Myndin sýnir skafl inni í yfirbyggðu göngubrautinni frá langatímastæðum fyrir bíla að flugstöðinni. Við heimkomu í dag hafði snjórinn verið hreinsaður úr göngubrautinni og unnið var að snjóhreinsun á bílastæðinu.
Að kvöldi þriðjudags 14. janúar féllu hættuleg,
stór snjóflóð fyrir vestan á Flateyri og á Suðureyri. Töluvert eignatjón varð á
Suðureyri en engin slys á fólki. Á Flateyri runnu tvö flóð. Annað þeirra endaði
á smábátahöfninni og olli miklu tjóni. Hitt snjóflóðið féll á íbúðarhús.
Mæðgurnar Anna Sigríður Sigurðardóttir og Alma Sóley Ericsdóttir Wolf. Myndina tók JÓIK og hún birtist á visir.is
Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, fjórtán ára stúlka, varð undir flóðinu. Í kvöld (16. janúar) talaði hún við Jóhann K. Jóhannsson, fréttamann á Ísafirði, eins og sjá mátti á Stöð 2 og lesa á visir.is. Hún segist hafa heyrt drunur og þremur sekúndum síðar hafi hún verið föst í snjó. Sérfræðingar veðurstofunnar segja að hraðinn á flóðinu hafi verið 150 til 200 km sem sé einstakt í sögunni.
„Það fyrsta sem ég hugsaði var að ég vildi vita meira hvernig maður á að koma sér úr þessum aðstæðum,“ segir Alma Sóley sem var í náttfötunum undir sæng í rúmi sínu:
„Rúmið mitt er alveg upp við gluggann. Það var eiginlega strax snjór allt um kring. Ég veit ekki hvort ég var á gólfinu eða í rúminu. Það var eins og snjórinn væri steypa og ég væri í móti. Ég gat hreyft mig kannski tvo sentimetra þannig að ég gat alveg andað. ... Ég var að hugsa um mömmu, systkini mín og kettina mína. Ég hélt að þetta hefði tekið allt húsið. Ég var að hugsa um að anda og bíða eftir einhverjum. Ég held ég hafi verið með meðvitund í svona sjö mínútur. Þá var ég bara að hugsa um að anda og vona að það væri í lagi með þau. Ég bara bjóst við því að einhver myndi koma. Mér hefur alveg verið kaldara, eins og þegar maður fer á skíði eða þannig. Mér hefur fundist ég vera með minni líkamshita.“
Það tók björgunarsveitarfólkið fjörutíu mínútur að grafa Ölmu Sóley út úr snjónum. Hún er ekki viss um að hún hafi heyrt í björgunarsveitarfólkinu. Hún taldi sig á einhverjum tímapunkti heyra í mömmu sinni og systkinum en það kann að hafa verið björgunarsveitarfólkið.
„Ég man bara eftir því að vera komin upp úr og vera komin á börur, verið að taka mig út. Ég man ekki eftir því að vera tekin upp úr. Það er ekkert brotið. Ég fékk bara glerbrot á hendurnar en eiginlega ekki neins annars staðar.“
Hugarró hennar þegar hún sagði sögu sína var aðdáunarverð og einnig fullvissa móður hennar, Önnu Sigríðar Sigurðardóttur, um að dóttur hennar yrði bjargað. „Mér finnst þetta í rauninni vera kraftaverk,“ segir Anna Sigríður. Hún stóð í stofu húss síns við burðarvegg sem veitti henni skjól. „Ótrúlegt að ég hafi staðið í stofunni þar sem ég stóð sem er sjálfsagt öruggasti staðurinn í húsinu.“