17.2.2019 10:39

Hugarburður verður að falsfrétt

Þessi falsfrétt þeirra Sigurðar G. og Ágústs Borgþórs verður Össuri Skarphéðinssyni síðan tilefni fullyrðingar á FB-síðu sinni um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði rekið Sigurð G. úr starfi.

Falsfréttir eru hvarvetna til umræðu hér skal nefnt dæmi um eina:

Í samtali við Ágúst Borgþór Sverrisson sem birtist á dv.is 14. janúar 2019 fullyrðir Sigurður G. Tómasson að ég hafi sem menntamálaráðherra staðið á bak við það árið 1995 að ákveðið yrði í útvarpsráði hverjir ráðnir væru í dægurmálaútvarp rásar 2 hjá ríkisútvarpinu. Hann kýs að láta þess ógetið að árið 1996 var hann ráðinn dagskrárstjóri rásar 2 þótt hann nyti ekki stuðnings meirihluta útvarpsráðs - hann fékk 3 atkvæði af 7.

Ári síðar var gerð skipulagsbreyting á yfirstjórn rásar 2 og þá ákvað Sigurður G. að sækja ekki um starf framleiðslustjóra dægurmálaefnis og hvarf frá störfum 1. nóvember 1997. Frásögnin sem Ágúst Borgþór birtir er hugarburður.

161118-Luckett-fakebook-news-tease_rasyqyRaunar er undarlegt að vandaður blaðamaður skuli birta efni sem auðvelt er að sannreyna án þess að gera það. Tilgangurinn er óljós nema ætlunin sé sú ein að koma höggi á mig og aðra að ósekju.

Nýlega féll  refsidómur yfir fjölmiðlamönnum fyrir ófrægingu án tilefnis.

Þessi falsfrétt þeirra Sigurðar G. og Ágústs Borgþórs verður Össuri Skarphéðinssyni síðan tilefni fullyrðingar á FB-síðu sinni um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði rekið Sigurð G. úr starfi. Þá taka athugasemdasmiðir við keflinu, einn þeirra Jón Halldór Gunnarsson segir: „Margar og margvíslegar syndir sjálfstæðisflokksins og þeirra nasistavina!“

Á eyjunni.is sem birti FB-færslu Össurar má lesa þessa athugasemd eftir Viggó Jörgensson:

„Það er einfaldlega rétt hjá Össuri að Sjálfstæðisflokkurinn vill gera út af við útvarp þjóðarinnar og fávitavæða fjölmiðlanna. Þeir verði allir í einkaeigu spillingaraflanna. Þá getum við fengið fávita eins og Trump í alla ráðherrastóla og enginn segir neitt.“

Þá snilld toppa líklega fáir að skýra kjör Trumps í forsetaembættið með því að það skorti ríkisútvarp í Bandaríkjunum! Af orðunum mætti ráða að Trump ætti sérstaklega góð tengsl við einkarekna fjölmiðla og þeir styddu hann. Frá upphafi hefur það þó verið eitt af höfuðmarkmiðum Trumps að útmála fjölmiðlamenn sem óvini fólksins og sín.

Það kann að vera rétt hjá Sigurði G. Tómassyni að árið 1995 (ég varð menntamálaráðherra þá um vorið) hafi verið ákveðið að útvarpsráð tæki afstöðu til þess hver gegndi stöðu dagskrárstjóra rásar 2. Ég hef ekki athugað það. Að hann hafi goldið þess í útvarpsráði er rangt.