7.12.2018 11:07

Huawei útilokað frá 5G-væðingunni

JP segir að Bretar hafi breytt afstöðu sinni til samstarfs við Huawei eftir upplýsingar frá bandarískum yfirvöldum.

dráttur

„Óttinn við að stjórnendur og her stórveldisins Kína geti nálgast viðkvæmar upplýsingar og hlerað íbúa Vesturlanda, fyrirtæki og stjórnvöld hefur hrundið af stað bylgju þar sem margir bandamenn Danmerkur hafa sett bann við viðskiptum við kínverska símafyrirtækið Huawei sem einnig annast rekstur og viðhald danska farsímanetsins fyrir TDC [stórt danskt símafyrirtæki] í Danmörku.“

Á þessum orðum hefst frétt í danska blaðinu Jyllands-Posten (JP) í dag (7. desember).

Blaðið segir að þar til í þessari viku hafi TDC og leyniþjónusta danska hersins (Forsvarets Efterretningstjeneste (FE)) blásið á allar áhyggjur af njósnum á vegum Huawei í Danmörku. Þetta sé gert þótt stjórnvöld í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum hafi bannað kínverska fyrirtækinu að taka þátt í uppsetningu á nýju ofurhraða farsímaneti, 5G.

Alex Younger, forstjóri bresku leyniþjónustunnar MI6, flutti ræðu á dögunum (aðra opinberu ræðuna á fjögurra ára ferli sínum) og varaði við því að Huawei eða öðrum kínverskum fyrirtækjum yrði hleypt inn í 5G-væðinguna í Bretlandi. Aðeins tveimur dögum síðar sagði í frétt The Financial Times að á næstu tveimur árum ætlaði British Telecom (BT) að fjarlægja allan Huawei-búnað úr 4G-neti sínu. Áður hafði verið tilkynnt að Huawei kæmi ekki að 5G-væðingu BT.

Forsaetisradherrar_Nordurlanda_blogg_1200x500Katrín Jakobsdóttir forætisráðherra með öðrum norrænum forsætisráðherrum við kynningu á nýrri tækni Vodafone á Íslandi í samstarfi við Huawei. Ráðherrarnir hittust í Svíþjóð í maí 2018 og birtist myndin á vefsíðu Vodafone Íslandi.

JP segir að Bretar hafi breytt afstöðu sinni til samstarfs við Huawei eftir upplýsingar frá bandarískum yfirvöldum sem einnig hafi rætt við viðkomandi aðila í Þýskalandi, Japan og á Ítalíu. Nú aukist þrýstingur á TDC.

Fyrir tveimur árum var skýrt frá því að Huawei hefði hafið sölu á farsímum á Íslandi þar sem fyrirtækið er í ofurflokki með Apple og Samsung.

Í febrúar 2017 var skýrt frá því að Huawei og Vodafone á Íslandi hefðu sett af stað tilraunaverkefni í svokallaðri NB-IoT tækni, Narrowband Internet of Things. „Snjalltengdir vatnsmælar, bílastæðanemar eða eftirlit með búfénaði, eru allt dæmi um notkunarmöguleika sem þessi nýja tækni felur í sér,“ sagði í fréttatilkynningu frá Vodafone í febrúar 2017 og í júlí 2018 sagði að með þessari tækni hefðu verið tekin „fyrstu skrefin í 5G væðingu félagsins“.

Í maí 2018 komu forsætisráðherrar Norðurlandanna saman í Svíþjóð og rituðu undir sameiginlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu á 5G á Norðurlöndunum. Áður höfðu þeir fengið sérstaka kynningu á þessari nýju tækni, meðal annars snjallvæðingu borgarsamfélagsins á vegum Vodafone á Íslandi.

Umræðurnar í Danmörku sem sagt er frá í JP sýna að norræn stjórnvöld hljóti að leggja mat á varnaðarorðin gegn samstarfi við Huawei.