8.7.2020 9:40

Huawei-sókn á Íslandi

Framsetning umboðsmannsins er öll eins og að óréttmætt sé að koma í veg fyrir að Huawei festi hér rætur með 5G-farkerfi sitt.

Umboðsmaður kínverska „fjarskiptarisans“ Huawei, Kenneth Fredriksen, lætur ljós sitt skína á forsíðu Morgunblaðsins í dag (8. júlí) og í viðtali í viðskiptakálfi blaðsins. Forsíðufyrirsögnin er: Huawei óttast ekki útilokun á Íslandi.

Framsetning umboðsmannsins er öll eins og að óréttmætt sé að koma í veg fyrir að Huawei festi hér rætur með 5G-farkerfi sitt.

HUAWEI-Dale-Cummings-Canada-PoliticalCartoons.com_Á erlendri fréttasíðu Morgunblaðsins er sagt frá því í dag að kínverski sendiherrann í Bretlandi vari bresk yfirvöld við álitshnekki á alþjóðavettvangi loki þau á Huawei-5G-farkerfið í Bretlandi.

Þegar tilkynnt var snemma árs að breska ríkisstjórnin ætlaði að heimila nýtingu á Huawei-tækni í hluta 5G-farkerfisins risu margir stuðningsmenn stjórnarinnar til andstöðu. Boris Johnson lét eins og hann ætlaði að hafa varnaðarorð flokksbræðra sinn að engu. Allt bendir nú til þess að nýtt áhættumat vegna 5G-viðskipta við Huawei leiði til þess breska stjórnin breyti um stefnu og banni þessi viðskipti.

Eftir að Boris Johnson gaf mánudaginn 6. júlí stefnubreytingu stjórnarinnar til kynna sagði kínverski sendiherrann: „Þú getur ekki átt þér neina gullöld [e. golden era] ef þú umgengst Kína eins og andstæðing,“ segir í Morgunblaðinu í dag.

Kenneth Fredriksen og aðrir talsmenn Huawei tala um fyrirtækið eins og hvert annað einkarekið fyrirtæki á alþjóðlegum markaði og reka upp ramakvein sé bent á tengsl þess við kínversk stjórnvöld. Alrangt sé að þau hafi nokkuð með fyrirtækið að gera eða njóti góðs af upplýsingum um einkahagi fólks eða opinber trúnaðarmál sem fara um boðleiðir Huawei-kerfisins.

Allt þetta tal um sjálfstæði Huawei verður marklaust þegar ummæli kínverska sendiherrans í Bretlandi hér að ofan eru lesin. Hann hótar í nafni Kína verði ekki af viðskiptum við Huawei.

Færeysk stjórnvöld kynntust þessum kínverska yfirgangi í desember 2019 þegar kínverski sendiherrann í Kaupmannahöfn heimsótti Þórshöfn og hótaði útilokun Færeyinga frá kínverska fiskmarkaðnum fengi Huawei ekki að búa um sig í Færeyjum. Grænlendingar hafa hafnað Huawei og danska ríkisstjórnin mótað stefnu gegn Huawei-5G-viðskiptum.

Nova, sem nýtir Huawei-5G-tækni, hóf rekstur 5G-sendis í Lágmúla í Reykjavík 5. maí í vor og „hefur nú sett upp tvo senda í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjabær er fyrsta bæjarfélagið á Íslandi sem er 5G-vætt,“ segir í Morgunblaðinu í dag.

Íslensk stjórnvöld eru á báðum áttum gagnvart Huawei ef marka má opinber gögn. Sé tekið mið af þróuninni í Evrópu er stöðugt þrengt meira að Huawei þótt umboðsmaður fyrirtækisins láti að öðru liggja í viðtalinu við Morgunblaðið sem birtist á þremur síðum, þar af tveimur forsíðum. Kínverski sendiherrann á Íslandi kvartar ekki í dag.