25.3.2024 11:46

Hryðjuverkið í Moskvu

Á vefsíðunni Desk Russie sem landflótta Rússar standa að baki í París er að morgni mánudagsins 25. mars fjallað um árásina inn í 6.200 manna tónleikasalinn.

Rússnesk yfirvöld ala á þeirri skoðun að hryðjuverkið sem framið var í Crocus-höllinni í Moskvu að kvöldi föstudagsins 22. mars sé undan rótum Úkraínumanna runnið. Vestrænir sérfræðingar segja að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams (ISIS) hafi verið þarna að verki en samtökin viðurkenndu ábyrgð sína nokkrum klukkustundum eftir að ódæðið var framið. Rússar segjast hafa fjóra menn í haldi og saka þá um að hafa unnið illvirkið.

 Screenshot-2024-03-25-at-11.41.00

Moskvubúar láta í ljós samúð sína vegna fórnarlamba hryðjuverkamannanna.

Á vefsíðunni Desk Russie sem landflótta Rússar standa að baki í París er að morgni mánudagsins 25. mars fjallað um árásina inn í 6.200 manna tónleikasalinn en hann er hluti af stórhýsaþyrpingu sem heitir á ensku Crocus City Expo.

Galia Ackerman segir á Desk Russie að kvöldið örlagaríkja hafi engin vopnuð vakt verið í þessari húsaþyrpingu, heldur aðeins nokkrir óvopnaðir öryggisverðir. Málmleitartæki við innganga voru biluð. Enginn viðbúnaður var á stóru torgi fyrir framan tónleikasalinn. Fjórir vopnaðir menn fóru hindrunarlaust inn í salinn um hliðarinngang í þann mund sem rokktónleikar voru að hefjast. Þeir skutu í um það bil 20 mínútur á þá sem sátu í salnum og úðuðu stóla þar með eldfimum vökva. Síðan yfirgáfu þeir salinn og hlupu til bifreiðar sem hafði verið lagt í um 200 m fjarlægð. Sérsveit öryggislögreglunnar kom á vettvang um klukkustund eftir að skothríðin á varnarlausa tónleikagesti hófst, bækistöð hennar er þó rétt hinum megin við umferðaræðina sem liggur fram hjá Crocus City Expo.

Rússnesk yfirvöld segja að hryðjuverkamennirnir hafi verið stöðvaðir og handteknir í Brjansk-héraði um 400 km frá Moskvu. Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði í ávarpi sem hann flutti 19 klukkustundum eftir að ódæðið var framið að þeir hefðu ætlað til Úkraínu enda hefðu yfirvöld þar „opnað þeim glufu“ á landamærum sínum. Galia Ackerman bendir á að Brjansk-hérað eigi land bæði að Úkraínu og Belarús. Bíllinn hefði alveg eins getað verið á leiðinni til Belarús. Hún spyr hvers vegna mennirnir hafi komist þetta langt án þess að hafa verið stöðvaðir fyrr í ljósi allra rússnesku eftirlitskerfanna. Það var kannski opnuð glufa af hálfu Rússa inn í Belarús?

Síðan minnir hún á að fyrr í mars hafi bandarísk yfirvöld og fulltrúar sex Evrópulanda varað Kremlverja við yfirvofandi árás í Moskvu. Pútín kallaði þetta „vestrænar ögranir“. Hvað sem slíkum ábendingum líður einkennist rússneskt þjóðlíf af miklum skara lögreglumanna þar sem fólk kemur saman, þar á meðal til að hlusta á flutning tónlistar, svo ekki sé minnst á samkomur stjórnarandstæðinga. Umhverfis Moskvu eru vegatálmar og eftirlitshlið mönnuð þungvopnuðum lögreglusveitum og öllum er skylt að fara í gegnum málmleitartæki.

Hér skal ekki endursagt meira úr þessari grein. Þar er hins vegar brugðið upp mynd sem sækir örugglega á marga sem hafa kynnt sér stjórnarhætti Pútins og er trúverðugri en kenning hans sjálfs að Úkraínumenn hafi staðið að þessu voðaverki. Í krafti orða Pútins verður vald öryggislögreglunnar nú aukið í Rússlandi samtímis því sem hundruð þúsunda manna verða kvaddir í herinn.