6.6.2020 10:39

Hrópandi þögn í Eflingu

Nú tveimur vikum eftir aðalfundinn hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá neinum stjórnarmanna Eflingar vegna alvarlegra ásakana á hendur Sólveigu Önnu.

Ný stjórn undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur tók við stjórnartaumum Eflingar á aðalfundi stéttarfélagsins á Hótel Sögu miðvikudaginn 20. maí. Varaformaður stjórnar er Agnieszka Ewa Ziólkowska. Aðrir fulltrúar í stjórn Eflingar eru Eva Ágústsdóttir, Kolbrún Valvesdóttir, Guðmundur Baldursson, Daníel Örn Arnarsson, Michael Bragi Whalley, Innocentia Fiati, Felix Kofi Adjahoe, Ólöf Helga Adolfsdóttir, Jóna Sveinsdóttir, Stefán E. Sigurðsson, Úlfar Snæbjörn Magnússon, Zsófía Sidlovits og Þorsteinn M. Kristjánsson.

Nú tveimur vikum eftir aðalfundinn hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá neinum stjórnarmanna Eflingar vegna alvarlegra ásakana sem Elín Kjartansdóttir, 66 ára og viðloðandi verkalýðshreyfinguna í 40 ár, bar fram á aðalfundinum á hendur Sólveigu Önnu og klíkunni úr Sósíalistaflokks Íslands sem komst til valda með henni með stuðningi 8% félagsmanna árið 2018. Í tvö ár hafa meðstjórnendur Sólveigar Önnu í Eflingu setið og staðið eins og formaðurinn og framkvæmdastjóri hennar, Viðar Þorsteinsson, vilja.

1210723Þessi mynd af nýrri stjórn Eflingar birtist í Morgunblaðinu í vikunni.

Elín glímdi við veikindi í 18 mánuði áður en læknir taldi hana hæfa til að hefja störf að nýju hjá Eflingu. Sendi lögmaður hennar mánudaginn 9. mars tilkynningu til Eflingar um endurkomu hennar til starfa. Elín fékk fimmtudaginn 12. mars uppsagnarbréf frá Lögmannsstofunni Mandat f.h. Eflingar. Var ekki óskað eftir vinnuframframlagi frá henni á 6 mánaða uppsagnafresti frá 1. apríl 2020. Með þessari kuldalegu uppsögn án minnsta þakklætisvotts voru lífeyrisréttindi hennar auk þess skert um tæp tvö ár að boði valdhafa Eflingar. Elín sagði:

„Efling er nú orðin fyrirmynd verstu atvinnurekenda. Þvílík vanvirðing og miskunnarleysi þeirra sem hér ráða. Ekki er þar við covid eða córónuveiruna að sakast. Að enda vinnuferilinn sinn á þennan hátt og geta ekki lokið löngum og farsælum ferli með reisn, veldur sorg og vanlíðan.

Þetta eru fordómar gagnvart eldra fólki og ekki síst konum því það eru konurnar í starfshópi félagsins sem hafa fengið að kenna á því hjá forystu Eflingar.“

Í ræðu sinni sagði Elín að Sólveigar Önnu yrði ekki minnst fyrir baráttu í þágu láglaunafólks, í því efni sinnti hún aðeins skyldu sinni eins og aðrir forystumenn verkalýðsfélaga hefðu gert áratugum saman. Hennar yrði hins vegar meðal annars minnst sem formannsins sem rak starfskonurnar sem voru að nálgast eftirlaunaaldur eftir margra ára farsælt starf hjá Eflingu; sem formannsins sem rak starfsfólkið eftir langvarandi veikindi sem voru að snúa aftur til starfa; sem formannsins sem rak eldri konurnar og skerti lífeyrisréttindi þeirra svo um munar; sem formannsins sem lagði blessun sína yfir að það mætti bola fólki úr starfi, leggja það í einelti og skerða tjáningafrelsi þess og hóta því og beita andlegu ofbeldi.

Ávirðingalistinn í ræðu Elínar var mun lengri. Að Sólveig Anna og Viðar séu forhert í þögn sinni vegna ræðunnar kemur ekki á óvart. Hitt vekur undrun að enginn í stjórn Eflingar að taki upp hanskann fyrir þá sem eiga um sárt að binda vegna vinnubragða sósíalistanna.