4.11.2017 10:53

Ótti Pírata - Thor:Ragnarok

Einkennilegt er að Birgitta kjósi að grípa til enska orðsins legacy þegar hún nefnir pólitíska arfleifð sína. Hún ætti að hafa betra vald á íslensku en þarna birtist. Það er til marks um leti eða virðingarleysi við móðurmálið að umgangast það á þennan hátt.

Pírötum er ekki auðvelt að laga sig að þátttöku í ríkisstjórn. Helsta einkenni þingmanna flokksins er hjáseta, þá skortir ef til vill kjark ef marka má nýja lýsingu á ótta þeirra við Sjálfstæðisflokkinn.

Birgitta Jónsdóttir, drifkraftur Pírata, er horfinn af þingi þótt draumur hennar um 9 mánaða setu ríkisstjórnar hafi loks ræst. Fyrir kosningarnar 2016 ætlaði hún að nota 9 mánuði til að samþykkja nýja stjórnarskrá og kollvarpa stjórnarráðinu. Hvorugt heppnaðist en stjórnmálaóreiðan jókst með átta þingflokkum að loknum kosningum.

Á visir.is í dag (4. nóvember) segir Birgitta farir sínar ekki sléttar. Hún segir:

„Ég var hreinsuð út og var náttúrlega ekkert í þessum kosningaham Pírata. Ég held að það hafi verið út af ótta við Sjálfstæðisflokkinn, eða mér skildist það. Það var eina skýringin sem ég fékk.“

Hreinsuð út? Já, Birgitta segir að sér hafi verið bolað úr heiðurssæti á framboðslista af ótta ráðamanna Pírata „við að Sjálfstæðisflokknum tækist að hræða fólk með því að hún yrði ráðherra, ef hún yrði í heiðurssætinu“.

Birgitta segist „ekki lengur“ sár yfir þessu af því að hún sé stolt yfir þætti sínum við að búa til hreyfingu Pírata. „Mér finnst það frábært legacy,“ segir Birgitta. Hún er skáldkona. Spurning er hvort líta beri á orð hennar um ótta Pírata við Sjálfstæðisflokkinn sem skáldskap eða raunveruleika.

Þeir sem vinna nú að því að mynda ríkisstjórn með eins manns meirihluta í samvinnu við Pírata ættu að minnsta kosti að hafa orð Birgittu í huga við áhættumat sitt.

Einkennilegt er að Birgitta kjósi að grípa til enska orðsins legacy þegar hún nefnir pólitíska arfleifð sína. Hún ætti að hafa betra vald á íslensku en þarna birtist. Það er til marks um leti eða virðingarleysi við móðurmálið að umgangast það á þennan hátt.

 Þetta virðingarleysi birtist vel í auglýsingu á kvikmynd sem nú er sýnd í Sam-bíóunum og heitir á ensku Thor:Ragnarok og eru orðin rituð þannig dag eftir dag í kynningu Morgunblaðsins. Þessi tvö orð eru upprunalega bæði íslensk: Þór og Ragnarök og eru hluti af heimsmenningunni fyrir tilstuðlan Snorra Sturlusonar í Reykholti í Borgarfirði.

Myndin er um þrumuguðinn Þór og baráttu hans við ill öfl sem birtast í Surti og Hel (kölluð Hela í kynningu á kvikmyndinni). Þarna koma Óðinn, Loki, Heimdallur og fleiri hetjur norrænnar goðafræði við sögu svo að ekki sé minnst á Fenrisúlf, Bifröst, Ásgarð og Miðgarð. Miðað við texta Snorra er frjálslega farið með söguþráðinn, kjarninn er þó sá sami og hjá Snorra og persónurnar bera sömu einkenni og hann gaf þeim.

Skeytingarleysið um minningu Snorra og rit hans, hornsteina íslenskrar tungu, nær nýjum hæðum þegar kvikmynd um Þór og Ragnarök er auglýst á ensku fyrir íslenska kvikmyndahúsagesti.