Hreinsanir á Fréttablaðinu
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, rak Helga Vífil undir lok miðvikudags 30. mars og Guðmundur Gunnarsson kom til starfa að morgni föstudags 1. apríl.
Fréttablaðið er sameiningartákn Samfylkingar og Viðreisnar undir fána ESB-aðildar og aðdáunar á Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.
Fríblöð taka að jafnaði ekki flokkspólitíska afstöðu enda reisa þau afkomu sína á tekjum af sölu auglýsinga frá fyrirtækjum sem vilja almennt ekki láta kenna sig við einstaka stjórnmálaflokka eða pólitísk ágreingsefni.
Að baki Fréttablaðinu er fyrirtækið Torg þar sem Helgi Magnússon, einn stofnenda Viðreisnar, er höfuðeigandi.
Lengi var viðskiptakálfurinn Markaðurinn hluti af Fréttablaðinu en fyrir nokkrum mánuðum hvarf kálfurinn og markaðsefni varð hluti af daglegum fréttum Fréttablaðsins. Fyrir fáeinum dögum varð skyndileg breyting á fréttastjórn þessa hluta Fréttablaðsins eins og frá var skýrt á vefsíðunni visir.is föstudaginn 1. apríl.
Þar segir Helgi Vífill Júlíusson það hafa komið sér verulega í opna skjöldu þegar honum var sagt upp sem fréttastjóri Markaðarins með minna en tveggja daga fyrirvara. Var hann látinn víkja þegar Guðmundur Gunnarsson, fréttamaður, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og oddviti Viðreisnar, var ráðinn í hans stað.
Þessi samsetta mynd birtist á visir.is. Á henni eru frá vinstri Sigmundur Ernir Rúnarsson, Helgi Vífill Júlíusson og Guðmundur Gunnarsson.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, rak Helga Vífil undir lok miðvikudags 30. mars og Guðmundur Gunnarsson kom til starfa að morgni föstudags 1. apríl. Helga Vífli var ekki boðið að starfa áfram undir stjórn Guðmundar.
„Manni finnst kannski liggja í augum uppi að þetta er pólitísk ráðning. Aðaleigandi blaðsins Helgi Magnússon kom að stofnun Viðreisnar og svo ráða þeir þennan varaþingmann Viðreisnar. Ég hef verið viðskiptablaðamaður frá árinu 2006 með hléum en hann hefur enga reynslu af viðskiptablaðamennsku og litla reynslu af viðskiptalífinu,“ segir Helgi Vífill.
Sigmundur Ernir sagði í skriflegu svari til Vísis að Guðmundur væri lærður blaðamaður með margra ára reynslu, fagmaður sem léti því ekki skoðanir sínar þvælast fyrir sér í starfi.
Miðað við ritstjórnarstefnu Fréttablaðsins undir forystu Sigmundar Ernis er örugglega rétt að skoðanir Guðmundar þvælast ekki fyrir honum í starfi fyrir Fréttablaðið.
Á vefsíðunni Kjarnanum sem rær á sömu skoðanamið og Fréttablaðið er fylgst reglulega með mælingum á lestri blaðsins og 12. febrúar 2022 segir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, að í janúar 2022 hafi lestur blaðsins mælst 29,9%. Sé lesturinn í fyrsta sinn undir 30% síðan mælingar á honum hófust. Lesturinn hafi helmingast á einum áratug. Þórður Snær telur að frá 2019 þegar Helgi Magnússon keypti blaðið hafi hann og viðskiptafélagar hans sett um 1,5 milljarð króna annars vegar til að kaupa Torg og hins vegar til að styrkja rekstur útgáfufélagsins.
Nú kemur í ljós hvort varaþingmanni Viðreisnar, sem fór mikinn þegar jöfnunarregla kosningalaganna hélt honum utan þinghússins, tekst að snúa dæminu við fyrir flokksblað ESB-aðildarsinna.