4.12.2021 11:33

Hrein orka hér og í Genf

Við erum svo góðu vön við sjálfbæra nýtingu á hreinni, endurnýjanlegri orku að hér hafa þeir haft of mikil áhrif sem leggjast gegn nýtingu hennar.

Við erum svo góðu vön við sjálfbæra nýtingu á hreinni, endurnýjanlegri orku að hér hafa þeir haft of mikil áhrif sem leggjast gegn nýtingu hennar. Þessi pólitíska afstaða dregur meðal annars þann dilk á eftir sér núna þegar drifkraftur atvinnulífsins verður meiri en áður að græna raforku skortir. Nauðsynlegt er að ræsa mengandi dísilrafstöðvar til að sjá loðnubræðslum fyrir raforku.

Landsvirkjun hefur ákveðið að takmarka afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðjanna sem samið hafa um kaup á skerðanlegri raforku. Verður afhendingin takmörkuð við 25 megavött í janúar en á fullum afköstum geta verksmiðjurnar nýtt um 100 MW. Skerðingin getur því orðið 75%.

Þeir sem kaupa forgangsorku ganga fyrir á skömmtunartímum. Þar eru álbræðslurnar í fremstu röð en verð á afurðum þeirra hefur snarhækkað og um þessar mundir bræða þær gull.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir um takmörkun á raforkuafhendingu til fiskimjölsverksmiðja landsins í Morgunblaðinu í dag (4. desember):

„Þetta snertir ekki aðeins fyrirtækin heldur er það högg fyrir þjóðina að við skulum vera í þessari stöðu í landi sem er fullt af vatnsorku og orku úr öðrum endurnýjanlegum orkulindum sem við höfum ekki beislað. Það segir okkur að menn hljóta að þurfa að meta orkuþörfina til að ná settum loftslagsmarkmiðum fyrir árið 2030.“

Orkuþörfin er þekkt en andstaðan við að mæta henni hefur gengið úr hófi. Með sáttmála nýju ríkisstjórnarinnar er stigið skref til að skapa hæfilegt pólitískt jafnvægi með því að setja loftslagsmál og orkumál undir sama pólitíska hattinn í ráðuneytinu sem Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki stýrir.

Á meðan hér er þrefað fram og til baka um hvort nýta eigi grænu orkuna eru aðrar þjóðir á nálum yfir að eiga ekki aðgang að henni og leita allra leiða til að komast úr því öngstræti.

Geneva_geothermie_915x545Með tækjum sem þessum hafa skjálftar verið mældir í Genf undanfarið.

Í Genf í Sviss er unnið að jarðhitaverkefni sem vekur athygli langt út fyrir mörk borgarinnar. Undanfarin misseri hafa farið fram skjálftamælingar á um 20.000 stöðum í borginni og nágrenni hennar í leit að heitu vatni. Á vefsíðu verkefnisins segir að eftir því sem dýpra sé borað þeim mun heitara verði vatnið þar sem það finnist, hækki um 30° á 1000 m og verði því 100° heitt á 3.000 m dýpi.

Skjálftamælingarnar eru svo miklar og nákvæmar vegna þess að boranir til dæmis í Basel og Strassborg hafa leitt til skjálftavirkni sem hræða íbúa og fæla yfirvöld frá áformum um nýtingu á heitu vatni í iðrum jarðar.

Nú að loknum þessum miklu mælingu ætla Genfarmenn að velja hentugustu tilraunasvæðin og bora þar á árunum 2023 og 2024.

Bent er á að jarðhitaorka sé 100% heimaunninn og endurnýjanleg, hún komi í stað jarðefnaeldsneytis og gæti árið 2035 fullnægt 20% af hitaþörf íbúa Genfar. Nú er að sjá hvort rannsóknir og niðurstöður þeirra dugi til að hindra stöðvunaráráttu efasemdarmanna í Genf. Vonandi lenda framtakssamir svissneskir jarðhitamenn ekki í samskonar tafaferli og einkennir alla þætti orkunýtingar hér á landi um þessar mundir.