Hrakför RÚV
Þessi hrakför er áfall fyrir trúverðugleika RÚV í mörgu tilliti. Hvernig hefði RÚV staðið að frásögnum um þetta mál ætti fréttastofa RÚV ekki sjálf hlut að máli?
Hæstiréttur sýknaði fimmtudaginn 3. maí Sigmund Erni Rúnarsson sjónvarpsmann í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus höfðaði á hendur honum vegna fréttar Hringbrautar um að Spartakus væri „íslenskur eiturbarón í S-Ameríku“. Hringbraut vitnaði í frétt ríkisútvarpsins (RÚV) en áður hafði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Spartakusar, samið við RÚV um 2,5 m. kr. greiðslu fyrir skjólstæðing sinn vegna fréttarinnar þar.
RÚV var mikið í mun að leyna efni samkomulags síns við Spartakus þótt af þessu hálfu hefði verið svarað spurningum um fjárhæðina til hans.
Í september 2017 leitaði Fréttablaðið skýringa á því hvers vegna RÚV hefði ákveðið að semja um greiðslu bóta í stað þess að láta reyna á málið fyrir dómstólum.
Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins, sagði í skriflegu svari til blaðsins: „Almennt séð er það vissulega svo, og líkt og leiðir af eðli málsins, að þegar málum er lokið með samkomulagi, líkt og hér um ræðir, þá byggir slíkt á hagsmunamati, þ.m.t. lögfræðilegu- og fjárhagslegu.“
Lögfræðilega komst RÚV að rangri niðurstöðu og fjárhagslega fór RÚV illa út úr málinu.
Fréttablaðið vildi meiri upplýsingar frá RÚV sem hafnaði beiðni um þær og 25. september 2017 kærði blaðamaður Fréttablaðsins neitun RÚV til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðaði 6. apríl 2018 að ekki skyldi hvíla leynd yfir þessu gjörningi RÚV.
Í úrskurði nefndarinnar eru rök RÚV fyrir nauðsyn leyndar rakin og þar segir meðal annars:
„RÚV bendir á að aðilar dómsmála telji það oft þjóna hagsmunum sínum að leiða erfið og viðkvæm mál til lykta með samkomulagi sín á milli, sem feli í sér endanleg málalok og jafnframt þannig að þau séu bundin trúnaði. Ef ekki sé hægt að tryggja slíkan trúnað geti það, a.m.k. í einhverjum tilvikum, staðið slíkum málalyktum í vegi. [...] RÚV telur áhöld vera um hvort samkomulagið falli undir gildissvið upplýsingalaga, hvað þá þegar búið er að upplýsa um fjárhæðir.“
Í umsögn kæranda, það er Fréttablaðsins, segir:
„Það geti ekki verið samningsatriði hvort fréttaflutningur sé réttur eða rangur. Ef frétt er röng eða vafasöm í einhverjum atriðum eigi almenningur rétt á því að vita það. Þá eigi fjölmiðill engan annan kost en að draga fréttina til baka eða leiðrétta hana og biðjast velvirðingar. Ef fréttastofa sjái ekkert athugavert við vinnubrögð sín, úrvinnslu og frétt hljóti hún að standa við hana.“
Úrskurðarnefndin féllst ekki á sjónarmið RÚV og var því gert skylt að birta samkomulagið að undanskildum fáeinum línum.
Þessi hrakför er áfall fyrir trúverðugleika RÚV í mörgu tilliti. Hvernig hefði RÚV staðið að frásögnum um þetta mál ætti fréttastofa RÚV ekki sjálf hlut að máli?
Að fréttastofan kjósi að kaupa sig frá því að verja frétt sína fyrir dómstóli sýnir að hún taldi sig fara með rangt mál. Hún hafði hins vegar hvorki þrek til að leiðrétta fréttina né draga hana til baka, kaus að borga og reyna síðan að beita þöggun.
Hvað segir ný stjórn RÚV um þetta mál? Eða mennta- og menningarmálaráðherra? Svo að ekki sé minnst á allsherjar- og menntamálanefnd alþingis þar sem fyrrverandi útvarpsstjóri, Páll Magnússon, situr í forsæti.