20.2.2018 10:04

Hótanastjórnmál Pírata

Kjörnum fulltrúum Pírata virðist um megn að helga sig öðru en einstaklingsbundnum álitaefnum og nálgast þau gjarnan með hótunum um afarkosti.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ræðir lítið annað en kjör þingmanna eins og enn er staðfest í grein í Morgunblaðinu í dag (20. febrúar). Þar má meðal annars lesa þessa „uppljóstrun“:

„Til viðbótar við þingfararkaupið og húsnæðiskostnað er svo ferðakostnaðurinn, sem fjallað hefur verið um á undanförnum dögum. Til að byrja með fá allir þingmenn fastan ferðakostnað. Til viðbótar er ferða- og gistikostnaður innan lands í tengslum við störf þingmanns endurgreiddur. Allur ferðakostnaður til útlanda á vegum þingsins er líka endurgreiddur.“

Björn Leví segist ganga fram í nafni gegnsæis eins og kemur fram í lok greinar hans þar sem hann segir að röng skráning þingmanns í akstursadagbók geti „talist fjársvik“. Það þýði að akstursdagbókarmál haldi áfram í forsætisnefnd berist rökstutt erindi nefndinni. „Þá er spurning, verður niðurstaðan rétt eða pólitísk? Ef flokkarnir eru þeir einu með aðgengi að upplýsingunum þá er alltaf hægt að segja að niðurstaðan sé pólitísk. Þess vegna þarf gagnsæi...“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sat fyrir svörum í sjónvarpsþættinum Silfrinu sunnudaginn 18. febrúar. Á mbl.is birtist þetta um afstöðu hans:

„Helgi Hrafn gagnrýndi að það sé hlutverk forsætisnefndar Alþingis að fjalla um kjör og kostnað þingmanna, meðal annars þegar kemur að aksturskostnaði. Hann segir að slíkar ákvarðanir eigi að vera teknar utan þings.

„Mig langar ekki að svara þessum spurningum. Ég er vanhæfur til þess, skilurðu. Þú ert að spyrja mig um mín kjör. Ég get ekki svarað því og á ekki að svara því, það á að vera einhver annar aðili sem á að gera það.““

Ólík afstaða þingmanna Pírata í þessu máli sýnir í hnotskurn um hvað stjórnmálastarf þeirra snýst. Helgi Hrafn segir að sig skorti tíma til að taka afstöðu til þingmála vegna þess hve lítill „fyrirsjáanleiki“ er í dagskrá þingsins. Hann hefur auk þess varpað fram hugmynd um að við afgreiðslu mála á þinginu verði meira stuðst við tölvur og þá ef til vill einnig gervigreind til að létta undir með þingmönnum.

Á baksíðu Fréttablaðsins í dag (20. febrúar) víkur Haukur Örn Birgisson að viðbrögðum Halldórs Auðars Svanssonar, borgarfulltrúa Pírata, við því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bannaði Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum, að sitja fund borgarfulltrúa og þingmanna í Höfða. Halldór Auðar gekk til liðs við meirihluta í borgarstjórn eftir að stofnað var sérstakt ráð fyrir hann.

Skriflega krefst Halldór Auðar að forsætisráðherra tjái sig opinberlega um málið og að utanríkisráðherrann biðjist afsökunar á framferði sínu á fundinum. Verði ráðherrarnir ekki við kröfum borgarfulltrúans ætlar hann ekki mæta á fleiri fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar, Vinstri-grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Haukur Örn segir:

„Svona dramatískar yfirlýsingar af litlu tilefni hljóta á endanum að einangra þá stjórnmálamenn sem þær gefa og vekja spurningar um hvort fólkið sem svona starfar geti nokkuð gengið að því vísu að aðrir vilji starfa með þeim sjálfum. Búmerangið kemur að lokum í hnakkann á þeim. [...] Sá sem sífellt hneykslast eða móðgast og lætur ágreininginn ekki aðeins koma í veg fyrir samstarf heldur einnig samtal, vinnur lýðræðinu ekki gagn heldur ógagn.“

Kjörnum fulltrúum Pírata virðist um megn að helga sig öðru en einstaklingsbundnum álitaefnum og nálgast þau gjarnan með hótunum um afarkosti.