17.12.2017 10:44

Holur hljómur hjá Pírötum og Loga

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sett sig á háan hest gagnvart öðrum stjórnmálamönnum. Talar hann gjarnan eins og sá sem vammlaus er.

Þétting byggðar í Reykjavík hefur ekki aðeins leitt til húsnæðisskorts og hækkunar fasteignaverðs heldur einnig valdið margvíslegum deilum. Nú telur Einar Páll Svavarsson, íbúi við Mánatún í Reykjavík, að yfirvöld standi ólöglega að ákvörðunum um skipulag við Borgartún. Við Einar Pál er rætt í Morgunblaðinu laugardaginn 16. desember.

Hann segir að afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar á tillögu um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Borgartúns 24 sé ólögmæt.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, fulltrúi Pírata, vék af fundi við afgreiðslu málsins vegna vanhæfis og stórfelldra hagsmunaárekstra. Hún starfar hjá fyrirtæki sem vinnur við hönnun umræddrar lóðar. Í stað hennar var ekki boðaður varamaður. Þórgnýr Thoroddsen sat einn fund ráðsins sem varamaður Pírata. Hann er þó hvorki aðal- né varamaður í umhverfis- og skipulagsráði. Segir Einar Páll að Þórgnýr hafi því hvorki lögmætar forsendur til að sitja fund ráðsins né til að vera boðaður á fund. Þá hafi hann ekki heldur verið boðaður með löglegum hætti samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Allt er þetta til marks um lélega stjórnsýslu sem ekki á að líða. Að Píratar í borgarstjórn skuli standa þannig að málum er undarlegra en ella fyrir þá sök að stofnað var sérstakt ráð til að bæta stjórnsýslu innan borgarkerfisins svo að Halldór Auðar Svansson, fulltrúi Pírata í borgarstjórn, fengist til að styðja meirihlutann að baki Degi B. Eggertssyni. Hefði mátt ætla að eftir milljóna tugina sem varið hefur verið til að hlaða undir Halldór Auðar mundu að minnsta kosti Píratar leggja sig fram um góða stjórnsýsluhætti. Svo bregðast krosstré...


Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sett sig á háan hest gagnvart öðrum stjórnmálamönnum. Talar hann gjarnan eins og sá sem vammlaus er. Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra fimmtudaginn 14. desember dylgjaði hann um tvo ráðherra Sjálfstæðismanna, fjármálaráðherra og dómsmálaráðherr, á ósmekklegan hátt

Í Morgunblaðinu laugardaginn 16. desember var sagt frá því að embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefði vísað frá kæru sem barst í haust og sneri að því að Logi Einarsson hefði tekið dóttur sína á unglingsaldri með sér í kjörklefann á kjörstað á Akureyri þegar kosið var til alþingis 27. október. Lögreglan vísaði til þessa lagaákvæðis:

„Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.“

Kærandi taldi að ekki hefði verið uppfyllt skilyrði stjórnarskrár og 87. gr. laga um kosningar til alþingis um leynilegar kosningar. Vildi hann að kosningin í kjördæminu yrði úrskurðuð ógild. Sendi hann erindi um þetta til ráðuneytis sem framsendi það 7. desember 2017 til alþingis. Kjörbréfanefnd þingsins taldi hér um sakamál að ræða sem lögregla ætti að afgreiða en ekki skyldi úrskurðað um á alþingi. Nefndin taldi atvikið ekki þess eðlis að ætla mætti að það hefði haft áhrif á úrslit kosninganna í kjördæmi Loga.

Flokksformaður sem sætir kæru og lögreglurannsókn vegna framgöngu sinnar á kjörstað á ekki úr háum söðli að detta. Gagnrýni hans á aðra þingmenn má líkja við virðingu Pírata fyrir stjórnsýslureglum í borgarstjórn Reykjavíkur.