26.6.2020 11:40

Hollendingar um Kína í norðri

Hvatt er til þess að Hollendingar beiti sér fyrir meira frumkvæði af hálfu ESB á norðurslóðum. Hollensk stjórnvöld efli stjórnmálasamband sitt við Ísland og Grænland.

Hér var í gær (25. júní) birt endursögn á grein eftir Caroline de Gruyter, hollenska blaðakonu og dálkahöfund, sem fær efni sitt birt í mörgum blöðum í Evrópu á hollensku og ensku en hún er búsett í Osló og Evrópurfréttaritari fyrir NCR Handelsblad í Hollandi.

Í sjálfu sér er ekki nýtt að erlendir blaðamenn setji Ísland og Grænland í það ljós að Kínverjar seilist hér til áhrifa sem séu þess eðlis að áhugavert sé fyrir Bandaríkjastjórn og stjórnvöld í Evrópuríkjunum. Miklu skiptir fyrir íslensk stjórnvöld að þar sé ekki farið rangt með staðreyndir.

Nýlega birtist í Hollandi skýrsla á vegum Clingendael Institut, utanríkismálastofnunar í Hollandi, um aukin áhrif Kínverja á norðurslóðum. Heiti skýrslunnar er: Presence before power, China´s Arctic strategy in Iceland and Greenland. Í heitinu felst að áður en Kínverjar sýni vald sitt á norðurslóðum þurfi þeir að tryggja sér fótfestu þar og í því samhengi eru Ísland og Grænland nefnd til sögunnar.

Hvatt er til þess að Hollendingar beiti sér fyrir meira frumkvæði af hálfu ESB á norðurslóðum. Hollensk stjórnvöld efli stjórnmálasamband sitt við Ísland og Grænland. Hollendingar kanni einnig hvernig þeir geti styrkt bein tengsl við Íslendinga og Grænlendinga til dæmis með aukinni vísindasamvinnu.

Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess að Hollendingar og aðrar ESB-þjóðir móti sér norðurslóðastefnu. Hitt er ástæða til að gagnrýna að afstaðan til Íslands sé mótuð af jafntakmarkaðri þekkingu og birtist í grein Caroline de Gruyter og í hollensku skýrslunni.

KinverskaSendiradid_2-672x372Kínverska sendiráðið í Reykjavík.

Endursögn skýrsluhöfunda á íslenskri stjórnmála- og utanríkismálasögu er verulega gölluð. Eitt lítið dæmi: „Sino-Icelandic cooperation has taken flight ever since [fríverslunarsamningur ríkjanna var gerður], with China building one of its largest embassy buildings in the world in Reykjavik.“

Kínverjar fluttu starfsemi sendiráðs síns fyrir nokkrum árum í stórt, fyrrverandi verksmiðjuhús á áberandi stað í borginni. Þeir byggðu ekki neitt.

Vilji menn tengja síðari tíma sögu samskipta Íslendinga og Kínverja tilraunum til pólitískra áhrifa hér á landi ætti rannsóknin meðal annars að beinast að tengingum forystumanna Samfylkingarinnar við Kínverja.

Tengslin sem Huang Nupo hafði við Ísland náðu inn í valdakjarna Samfylkingarinnar á sínum tíma. Þá hefur nú verið greint frá því að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, sé stjórnarformaður Yutong Eurobus Scandinavia AB, umboðsaðila rafknúinna strætisvagna sem keyptir voru hingað til lands og notaðir eru sem sýningargripir fyrir væntanlega kaupendur á Norðurlöndunum.

Öll þessi tengsl og fleiri við áhrifamenn hér á landi lýsa miklu betur en stór sendiráðsbygging hvort Kínverjar hafi náð hér fótfestu. Þá er ekki síður forvitnilegt að taka saman greinar og viðbrögð kínverska sendiherrans á Íslandi vegna atburða líðandi stundar.