26.3.2018 11:16

Höfuðborgarlista mætt með hræðsluáróðri

Tilgangurinn með upphaflegri FB-færslu Guðjón Friðrikssonar var að benda lesendum á að hlusta ekki á það sem Höfuðborgarlistinn hefur fram að færa.

Björg Kristín Sigþórsdóttir, formaður og oddviti Höfuðborgarlistans, kynnti nýja framboðslistann vegna borgarstjórnarkosninganna í vor fyrir framan ráðhús Reykjavíkur sunnudaginn 25. mars. Hún sagði listann stefna að því að reisa 10.000 nýjar íbúðir á kjörtímabilinu. Íbúðamál og mengunarmál væru efst á málefnalistanum hjá framboðinu. Hún taldi ekki skynsamlegt að verja 70-100 milljörðum króna til borgarlínu. Frekar ætti að bæta strætókerfið og hafa 5-7 mínútur á milli ferða á helstu leiðum til að byrja með. Á mbl.is er haft eftir Björgu Kristínu:

Björg Kristín Sigþórsdóttir. Myndin birtist á mbl.is ljósm. Kristinn Magnússon.

„Það segir sig sjálft að borgarbúar búa við mikla mengun og þetta getur ekki verið hollt fyrir einn eða neinn. Að heyra í útvarpinu einu sinni í viku að það megi ekki fara út úr húsi, viðkvæmir, aldraðir eða börn á leikskólum. Þetta er náttúrulega bara mjög óeðlilegt í borg og við viljum bara taka til í borginni og við munum taka 6-8 mánuði í það að ná tökum á hreinsun gatna og að hreinsa hér stofnvegi og ná tökum á því.“

Framboðið hafði ekki fyrr verið kynnt en Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og stuðningsmaður Dags B. sem borgarstjóra setti inn á FB-síðu sína:

„Höfuðborgarlistinn. Klofningur úr Sjálfstæðisflokknum eða herbragð flokksins til að ná aukakjósendum (á grundvelli umhverfisstefnu) yfir á hægri vænginn? Kaupmenn og athafnamenn í efstu sætum.“

Guðjón rökstyður skoðun sína þessum orðum:

„Árið 1998 var konan[Björg Kristín] mjög á móti Reykjavíkurlistanum, þá voru bara tveir flokkar í framboði. Þess vegna dreg ég þá ályktun að hún hafi líklega verið fylgjandi Sjálfstæðisflokknum, ekki vegna þess að hún er kaupmaður. En reyndar eru eða voru nú kaupmenn frekar fylgjandi Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum.“

Gísli Gunnarsson, fyrrverandi prófessor í sagnfræði, segir vegna færslu Guðjóns:

„Verið rólegir vegna þessa framboðs. Það kemur í ljós í kosningabaráttunni hvort þessi listi stefnir að því að vinna með hægri eða vinstri flokkum. Ef hann heldur áfram því sem efsti maður listans segir í RÚV, er nokkuð ljóst að listinn mun beina öllum kröftum sínum í það að gagnrýna núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Hann mun þá taka atkvæðin mest frá hægri.“

Sagnfræðingar leggja áherslu á að skýra fortíðina og setja hana í samhengi sem fæðist með rannsóknum þeirra. Þær mótast yfirleitt af íhugun og yfirvegun en ekki ótta eins og fram kemur hjá Guðjóni – ótta við kaupmenn (les: stjórnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja) og áhrif þeirra.

Einkenni stefnu Höfuðborgarlistans er að hann stendur nálægt því sem setur svip á daglegt líf þeirra sem um borgina fara, sóðaskapinn og svifrykið, virðingarleysið fyrir þeim sem nota bifreiðar og metnaðarleysið í húsnæðismálum. Ef það er aðeins fólk til hægri sem vill hafa þessa hluti í lagi fær það þarna nýjan farveg fyrir skoðanir sínar. Hitt er þó líklegra að allra flokka fólk vilji meiri metnað en núverandi meirihluti sýnir.

Tilgangurinn með upphaflegri FB-færslu Guðjón Friðrikssonar var að benda lesendum á að hlusta ekki á það sem Höfuðborgarlistinn hefur fram að færa heldur óttast hann vegna hugsanlegra tengsla við Sjálfstæðisflokkinn – þetta er dæmigerður hræðsluáróður að hætti vinstrisinna.