25.11.2017 7:16

Höfuðborg í vanda

Í tveimur greinum er í hnotskurn lýst kreppunni sem ríkir í málefnum Reykjavíkurborgar undir stjórn vinstri manna.

Albert Þór Jónsson er viðskiptafræðingur og MCF í fjármálum fyrirtækja með 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði. Hann ritaði grein í Morgunblaðið fimmtudaginn 23. nóvember um ömurlega fjármálastjórn vinstri manna í Reykjavík og hrikalega skuldasöfnun borgarinnar.

Í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 og fimm ára áætlun 2018-2022 er gert ráð fyrir að heildarskuldir Reykjavíkurborgar nemi 300 milljörðum kr. í lok árs 2018 og þar af verði lífeyrisskuldbindingar 36  milljarðar kr. „Á toppi hagsveiflunnar á Íslandi eru allir skattstofnar Reykjavíkurborgar fullnýttir en þrátt fyrir það hafa skuldir Reykjavíkurborgar aukist mikið þegar skynsamlegra hefði verið að greiða niður skuldir til þess að takast á við samdráttartíma,“ segir Albert Þór.

Hann bendir á að heildarskuldir Reykjavíkurborgar séu hærri en 150% af reglulegum tekjum sem er hámark samkvæmt lögum. Í nýrri fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að rekstrartekjur A- og B-hluta nema 155,6 milljarðar.kr. og heildarskuldir 290,5 milljarðar kr. sem þýðir að heildarskuldir sem hlutfall af reglulegum tekjum nema 187%, það er 37 stigum fyrir ofan lögbundið hámark. Reykjavíkurborg áætlar að rekstrartekjur árið 2018 verði 177,6 milljarðar kr. og heildarskuldir nemi 299,4 milljörðum kr. sem þýðir að þetta hlutfall verður 169%, það er 19 stigum fyrir ofan lögbundið hámark.

Vinstri menn hafa stjórnað borginni undanfarin 8 ár og safnað skuldum í miklu góðæri. Telur Albert Jón að borgin nálgist greiðsluþrot þegar hægist um í efnahagslífinu. Hann segir meðal annars:

„Útsvarsgreiðendur í Reykjavík sem hafa greitt háa skatta í gegnum tíðina eru fótum troðnir um alla borg þar sem breytt er skipulagi með einu pennastriki án grenndarkynninga og framkvæmdir hafnar allt í boði slagorðsins „þétting byggðar“. Síðan er höfuðborgin látin drabbast niður þannig að íbúar nágrannasveitarfélaga fara ekki inn í borgina nema að brýnni nauðsyn.“

Í grein sem birtist á vefsíðunni Kjarnanum fimmtudaginn 23. nóvember skrifaði Viðar Freyr Guðmundsson um þéttingu byggðar og segir meðal annars:

„Á kjörtímabilinu [frá 2014] hefur borgarmeirihlutinn aðeins úthlutað 14 lóðum fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum á sama tíma og þörfin er metin vera um 5000 íbúðir. Í tölum sem teknar voru saman í mars sl. kemur fram að frá síðustu kosningum hefur Reykjavíkurborg úthlutað 317 lóðum fyrir íbúðarhúsnæði. Meðan Kópavogur úthlutaði 348 lóðum, Hafnarfjörður 329 og Reykjanesbær með 359. [...]

Þessi þrjóska við að úthluta íbúðum er komin til vegna þess að borgarmeirihlutinn vill gera hvað sem er til að þétta byggð í borginni. Jafnvel þó það kosti umtalsverð óþægindi fyrir íbúana. Þetta er gert með það samfélagslega markmið  að fólk geti tekið strætó í vinnuna eða gengið og hjólað einhvern tímann í fjarlægri framtíð. Hugsunin er sem sagt sú að ef það búa nógu margir nógu þétt, þá þurfi fólk ekki að ferðast eins mikið innan borgarmarkanna.“

Í tveimur greinum er í hnotskurn lýst kreppunni sem ríkir í málefnum Reykjavíkurborgar undir stjórn vinstri manna. Hún stafar annars vegar af óráðsíu og óraunsæi í fjármálum og hins vegar af þröngsýni í skipulagsmálum sem leiðir til tekjuminnkunar vegna skorts á lóðum og brottflutnings þeirra sem betur mega sín.

Furðulegt er að hvorki fjölmiðlamenn né flokkspólitískir andstæðingar meirihluta borgarstjórnar hafa þrek eða þekkingu til að koma þessum staðreyndum á framfæri og leiða borgarbúum fyrir sjónir að borginni verði stefnt í þrot fái vinstri menn meirihluta til að stjórna að loknum kosningum 2018.