25.12.2022 11:03

Hlýja til Úkraínu – kuldi frá Rússum

Samhliða því sem hlýjar kveðjur eru sendar Úkraínumönnum á sýna Rússum þann kulda sem leiðir af dónaskap þeirra hér og stríðsglæpunum í Úkraínu.

„Níu tonn af hlýju frá Íslandi voru um borð í kanadískri herflutningavél sem flaug frá Keflavíkurflugvelli áleiðis til Úkraínu í dag,“ sagði í upphafi fréttar frá utanríkisráðuneytinu 12. desember sl. Nokkrum dögum síðar mátti sjá myndskeið frá Úkraínu sem sýndi hermenn taka við varningnum og fagna hlýjum gjöfum Íslendinga.

Þarna var um að vetrarútbúnað fyrir her Úkraínu og almenning að ræða. Utanríkisráðuneytið keypti skjólfatnað og skó frá Fjallakofanum, 66°N og Dynjanda fyrir tæpar 50 milljónir króna en raunvirði varningsins er um 140 milljónir. Þessi búnaður, auk sjúkragagna sem íslenskur aðili gaf, var fluttur með kanadísku vélinni. Í farminum voru auk þess rúmlega 3.500 pör af lopasokkum sem íslenskur almenningur prjónaði fyrir Úkraínu í tengslum við verkefnið Sendum hlýju og aðrar ullarflíkur sem íslenskt og úkraínskt prjónafólk hefur ýmist prjónað eða gefið á svonefndum hannyrðahittingum.

Þessi litla jólasaga úr samtímanum er áminning um hörmungarnar sem tilefnislaus, ólögmætur hernaður Vladimirs Pútins hefur valdið Úkraínumönnum. Hún er einnig algjör andstæða andans sem ríkti í sendiráði Rússlands við Garðastræti í Reykjavík dagana fyrir jól þegar starfsmenn þess litu yfir ávinninginn af 10 mánaða herför og eyðileggingu stríðsglæpa í Úkraínu.

1380202Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra (mynd: utanríkisráðuneytið).

Örvæntingarfullt ofstæki Rússa birtist hér á landi í endurteknum svívirðingum rússneska sendiherrans í garð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Hún fordæmdi stríðsaðgerðir Rússa í þætti á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 22. desember, daginn eftir, á Þorláksmessu, birti rússneska sendiráðið á Facebook-síðu sinni harðorð mótmæli við orðum utanríkisráðherra.

Sendiráðið endurtekur óhróður Kremlverja um Úkraínumenn og líkir þeim við nazista. Það segir að innrás Rússa sé ekki „tilefnislaus“ heldur „eðlilegt og rökrétt andsvar“ við langvinnum ofsóknum hers Úkraínu í garð samlanda Rússa. Ráðherranum er bent á að skoða betur ljósmyndir sem sendiráðið sendi utanríkisráðuneytinu 22. febrúar 2022 (tveimur dögum fyrir innrásina) en þær sýni stríðsglæpi Úkraínuhers. Sendiráðið svarar fullyrðingu um að ungir, óreyndir hermenn frá fátækum héruðum Rússlands séu sendir á vígvöllinn með þeim orðum að þar sé aðeins um að ræða „lágkúrulega vísun til kenningar sem þegar hefur gengið sér til húðar og stangast á við raunveruleikann“.

Stjórnmálasamband ríkja er að alþjóðalögum reist á gagnkvæmni. Hún birtist meðal annars í því að sama eigi yfir sendimenn ríkjanna að ganga, þeir eigi að hafa sambærilegt svigrúm, hvor í sínu landi, til að fara ferða sinna, láta í ljós skoðanir sínar og birta þær opinberlega í gistilandinu ef svo ber undir.

Rússar virða ekkert af þessu hér á landi og íslenska utanríkisráðuneytið líður þeim án viðurlaga að ganga þannig fram undir hatti sendiráðs síns að brýtur gegn heilbrigðri skynsemi. Af hroka er talað niður til íslenskra stjórnvalda. Hvenær í ósköpunum er nóg komið?

Samhliða því sem hlýjar kveðjur eru sendar Úkraínumönnum á sýna Rússum þann kulda sem leiðir af dónaskap þeirra hér og stríðsglæpunum í Úkraínu.