11.6.2022 11:23

Hjólreiðamenning Dana

Hjólreiðamenningu Dana er við brugðið. Hún varð að ágreiningsefni tveggja fyrrverandi bandarískra sendiherra í Kaupmannahöfn í vikunni.

Hér er vaxandi áróður rekinn fyrir hjólreiðum og sumir líta á það sem lífsstíl að nota reiðhjól á höfuðborgarsvæðinu. Hjólabrautum fjölgar og verulegt átak er gert til að tryggja hindrunarlausa leið hjólafólks undir umferðargötur eins og til dæmis má sjá núna undir Litluhlíð á milli Eskitorgs og Búðstaðavegar eða undir Bústaðaveg við gamla athafnasvæði Fáks við Reykjanesbraut. Á hinn bóginn er minni áhersla lögð á hindrunarlausa leið ökutækja, til marks um það eru til dæmis tvenn umferðarljós fyrir gangandi og hjólandi yfir Miklubraut fyrir austan og vestan Lönguhlíð.

Hjólreiðamenningu Dana er við brugðið. Hún varð að ágreiningsefni tveggja fyrrverandi bandarískra sendiherra í Kaupmannahöfn í vikunni. Carla Sands sem Donald Trump tilnefndi sendiherra á sínum tíma setti færslu á Twitter um að Danir hjóluðu svona mikið af því að þeir hefðu ekki efni á að aka bíl og yrðu að fara „lengri ferðir“ í lestum.

Rufus Gifford sem Barack Obama skipaði á sínum tíma sendiherra í Kaupmannahöfn sagði á Twitter að hann ætti erfitt með svara spurningum um réttmæti þessara orða þar sem hvert einasta þeirra væri lygi!

162880_origHjólað í Kaupmannahöfn.

Fjöldi nafnkunnra Dana hafa hneykslast á orðum Sands. Benny Engelbrecht, fyrrv. samgönguráðherra í núverandi ríkisstjórn Dana, hvetur Cörlu Sands til að koma í hjólatúr með sér næst þegar hún kemur til Danmerkur. Hann segir að í því felist val flestra Dana að fara hjóli um borgina, þar ráði ekki af sparnaðarþörf.

Carla Sands segir einnig í færslu sinni á Twitter:

„My embassy driver would bike an hour in the snow to get to work. That’s the future team Biden wants for Americans. Is this what you want?“

Færsla sendiherrans fyrrverandi er með öðrum orðum innlegg í stórpólitískar deilur í Bandaríkjunum um þessar mundir vegna hækkandi eldsneytisverðs. Sjónvarpsfréttamenn ræða við ökumenn sem segjast ætla að hætta að nota bíla sína, það sé alltof dýrt. Carla Sands segir að sendiherrabílstjórinn sinn hafi hjólað í klukkutíma í vinnuna þrátt fyrir snjókomu og segir: „Þessa framtíð vill Biden-liðið fyrir Bandaríkjamenn. Er þetta það sem þú vilt?“

Þessi tónn í umræðunum um reiðhjól og fjölskyldubílinn er engin nýlunda fyrir þá sem leggja við eyrun þegar rætt er um borgarlínuna samhliða brautakerfinu fyrir reiðhjól. Ætlun þeirra sem leggja mest á sig við að boða nýjar ferðavenjur og bíllausan lífsstíl er að umbylta hugsunarhætti okkar sem notum fjölskyldubílinn og látum okkur hafa það að fylla á hann þrátt fyrir gífurlega hækkun á eldsneytisverði.

Umferðarþunginn á höfuðborgarsvæðinu bendir ekki til þess að eldsneytisverðið dragi úr notkun bifreiða og sömu sögu er að segja þegar ekið er um undirlendi Suðurlands.

Sé það mælikvarði á velsæld og hvað menn leyfa sér í útgjöldum hve reiðhjól eru mikið notuð erum við Íslendingar ofarlega á listanum yfir fjárráð millistéttarinnar.