Hjálparsveit Þórunnar
Það kemur ekki á óvart að Þórunni sé rétt hjálparhönd úr þessari átt. Hjálparsveitin sem þarna birtist er jafnan til taks finnist félögum í henni halla á Samfylkinguna í opinberum umræðum.
Forseti alþingis, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sagði í þingsal 5. desember 2025: „Ég er komin með nóg. Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk.“
Áhrifavaldar á vinstri vængnum bera blak af þingforsetanum:
Sif Sigmarsdóttir, rithöfundur og dálkahöfundur á visi.is, sagði fimmtudaginn 11. desember:
„Bullvæðing stjórnmálanna er ógn við lýðræðið. Hvernig á almenningur að taka þátt í samtali um stefnu landsins þegar kjörnir fulltrúar tjá sig með sýndarrökum, útúrsnúningum og bulli?
Sjaldan hafa verið mælt sannari orð á Alþingi með jafnhnitmiðuðum hætti og formælingar Þórunnar Sveinbjarnardóttur.
„Ég er komin með nóg.“ Eruð þið komin með nóg?
Hvert er burðarþol íslensks almennings fyrir kjaftæði?“
Orð þingforsetans kölluðu fram þessa mynd á Facebook.
Listamaðurinn Jón Óskar sagði á FB-síðu sinni:
„Þórunn er flott og er í fullum rétti að bölva stjórnarandstöðunni, sem er skríll. Mér finnst miður að hún hafi beðist afsökunar því nú geta tuddarnir haldið áfram ... og það munu þeir gera.“
Egill Helgason, sjónvarpsmaður og bókakynnir, sagði í athugasemd við þessa færslu Jóns Óskars:
„Þórunn er afar prúð kona og kurteis. Segir sitt að hún hafi misst sig aðeins þarna. Virðist vera ófremdarástand í þinginu. Þrasið í þessu landi er alveg yfirgengilegt og eiginlega lamandi.“
Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður segir í pistli í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út 13. desember:
„Pistlahöfundur hefur ríka samúð með Þórunni í þessari stöðu. Það getur ekki verið skemmtilegt hlutskipti að vera skyldaður til að hlusta á stjórnarandstöðu landsins. Pistlahöfundi finnst hún heyra alltof mikið frá stjórnarandstöðunni og eiginlega allt byggist þar á reiði, niðurrifi og nöldri. Það er niðurdrepandi að hlusta á endalaust röfl einstaklinga sem eru óskaplega ósáttir við hlutskipti sitt og virðast hafa gert það að markmiði í lífi sínu að einblína á slæmu hliðarnar á öllum málum. Pistlahöfundur þolir það ekki vel og getur vel sett sig í spor Þórunnar sem starfs síns vegna á enga flóttaleið frá þessu neikvæða málæði stjórnarandstöðunnar.“
Það kemur ekki á óvart að Þórunni sé rétt hjálparhönd úr þessari átt. Hjálparsveitin sem þarna birtist er jafnan til taks finnist félögum í henni halla á Samfylkinguna í opinberum umræðum. Við það er ekkert að athuga. Hvert um sig hafa þau sinn vettvang til að láta ljós sitt skína.
Í orðum þeirra allra birtist gífurleg óþolinmæði gagnvart skoðunum annarra. Hún breytist í fyrirlitningu þegar stjórnarandstæðingar á alþingi eiga í hlut. Ekkert í stjórnmálaumræðu líðandi stundar jafnast á við þessa heift. Aðdáun vók-áhrifavaldanna á Þórunni er reist á því að hún beitti kjarnorkuákvæði þingskapa til að þagga niður í stjórnarandstöðunni 14. júlí 2025. Lofsyrðin um orðljóta þingforsetann núna boða kannski aðra kjarnorkuárás frá forseta alþingis?