16.7.2021 11:18

Hitastig flokkanna mælt

Hér á þessari vefsíðu verður eins og áður lítið látið með þessar kannanir. Þær snúast um viðhorf kjósenda á líðandi stundu.

Nú eru aðeins rúmir tveir mánuðir til þingkosninga (25. september 2021) og í Morgunblaði dagsins (16. júlí) er skýrt frá því að þar séu birtar niðurstöður í fyrstu skoðanakönnun sem reistar séu á samstarfssamningi blaðsins við rannsóknafyrirtækið MMR. Fyrirtækið er sagt stunda umfangsmiklar markaðsrannsóknir og geri einnig reglulegar fylgismælingar og tíðari en aðrir rannsóknaraðilar. Mælingarnar gefi mikilvægar vísbendingar um hið pólitíska landslag. Samstarfið gefi blaðinu „kost á að dýpka og bæta fréttaflutning til lesenda“.

Ekki er sagt hve tíðar þessar kannanir verða en samningurinn bendir til þess að niðurstöður þeirra ráði miklu um hvernig haldið verður á málum fram að kosningum. Það verða að jafnaði miklar umræður að loknum kosningum um hvort úrslitin hafi verið nær spá þessa könnunarfyrirtækisins eða hins. Þær deilur skipta í raun engu því að það er dómur kjósenda sem ræður.

1287614Myndin er fengin af mbl.is og sýnir fylgi flokka í könnun MMR sem er samstarfsaðili Morgunblaðsins fram að kosningum.,

Hér á þessari vefsíðu verður eins og áður lítið látið með þessar kannanir. Þær snúast um viðhorf kjósenda á líðandi stundu og minna að því leyti á fréttir af veðurathugunarstöðvum sem segja ekkert annað en hitastigið á þeim tíma sem lesið var af mælunum.

Nú í þeirrri mælingu sem gerð var af MMR 8. til 14. júlí 2021 kemur í ljós að þrír flokkar eru á sama róli Flokkur fólksins með 5,1% (3 þingmenn), Sósíalistaflokkurinn 5,6% (3) og Miðflokkurinn 5,2% (3). Til að ná manni inn á þing þarf flokkur að fá minnst 5%.

Sósíalistaflokkurinn yrði nýr á þingi undir forystu gasprarans Gunnars Smára Egilssonar. Í kosningunum 2017 fékk Flokkur fólksins 6,88% atkvæða og fjóra þingmenn. Tveir þessara þingmanna gengu til liðs við Miðflokkinn á kjörtímabilinu. Í kosningunum 2017 fékk Miðflokkurinn 10,87% og sjö þingmenn og hefur nú 9 með viðbótinni frá Flokki fólksins.

Það veit í raun enginn hverja eða hvað þessir flokkar bjóða fyrir kosningarnar. Að Miðflokkurinn dali svona kemur í sjálfu sér ekki á óvart þegar hugað er að framgöngu þingmanna hans á kjörtímabilinu. Framboðslistar flokksins eru að fæðast og fréttir berast af hörðum átökum.

Á vefsíðunni Viljanum sem stendur nálægt Miðflokknum sagði fimmtudaginn 15. júlí að þá um kvöldið hefði tillaga uppstillingarnefndar flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður um framboðslista verið felld á félagsfundi. Tillagan var um að Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, skipaði efsta sæti í stað Þorsteins Sæmundssonar alþingismanns. Þarna er því óleystur framboðsvandi vegna illdeilna innan þingflokksins.

Mæling MMR sýnir að fylgi við VG dalar verulega miðað við það sem Gallup sagði í lok júní eða um 5 prósentustig í 9,4 nú en var 14,7% hjá Gallup 30. júní 2021. Hvað gerðist? Jú, það birtust fréttir af könnun sem var talin sýna að meirihluti VG-kjósenda vildi ekki að flokkurinn sæti í ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Hitastigið í mælingunum ræðst af því hver er ímynd andlag mælinganna hverju sinni.