17.5.2018 12:00

Hildur greinir fjárhagsvandann - Dagur B. hreykir sér af honum

Hildur spyr réttilega hvað hafi orðið um þessa 60 milljarða. Ekki sjáist merki um þá í grunnþjónustunni sé litið til samgangna, leikskóla, grunnskóla eða hreinlætismála borgarinnar.

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er þess eðlis að Dagur B. Eggertsson og félagar hans í meirihlutanum gera allt í þeirra valdi til að hún komi ekki til umræðu fyrir kosningarnar 26. maí. Þeim tekst ótrúlega vel að fela fjármálin eða spinna kannig í kringum þau að erfitt er að átta sig á raunverulegri stöðu.

Hildur Björnsdóttir

Hildur Björnsdóttir, önnur á D-listanum, skrifar grein í Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins, miðvikudaginn 16. maí þar sem hún spyr um örlög milljarðanna sem streyma í sjóði borgarinnar. Hún bendir á að Dagur B. fullyrði að 5 milljarða hagnaður hafi orðið af venjubundnum rekstri borgarinnar. Þær niðurstöður fáist þó aðeins vegna 8 milljarða byggingaréttar- og eignasölu sem séu einskiptis tekjur, þær komi ekki aftur. Eðlilegra sé að tala up tap af hefðbundnum rekstri borgarinnar.

Þannig tala menn hins vegar ekki á kosningaári þegar spuninn er alls ráðandi. Einkennilegt er hve hann á greiða leið í fréttir gagnrýnislausra fjölmiðla.

Borgarstjóri segir skuldir „samstæðunnar“ lækka og slær þá saman skuldum Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar. Hildur bendir á að skuldir Orkuveitunnar hafi „að stórum hluta lækkað vegna styrkingar krónu“ og segir borgarsjóra slá „sig til riddara án innistæðu“. Varla geti Dagur B. eignað sér styrkingu krónunnar? Hann og félagar hans noti hins vegar „kennitölur frjálslega og eftir hentisemi“.

Í greininni segir Hildur:

„Árið 2017 höfðu tekjur borgarinnar hækkað að raunvirði um tæp 32% frá árinu 2014. Á sama tíma hafa skuldir borgarsjóðs aukist um ríflega 45%. Með öðrum orðum: núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur ekki látið sér nægja tæplega 30 milljarða tekjuaukningu, heldur aukið við skuldsetninguna sem nemur 30 milljörðum til viðbótar.“

Hildur spyr réttilega hvað hafi orðið um þessa 60 milljarða. Ekki sjáist merki um þá í grunnþjónustunni sé litið til samgangna, leikskóla, grunnskóla eða hreinlætismála borgarinnar. Merki um þá sjáist ekki heldur í húsnæðismálum. Þrátt fyrir að Dagur B. og félagar hafi „haft úr fordæmalausum fjármunum að spila“ segir Hildur réttilega að niðurstaðan sé „neyðarleg“ fyrir meirihlutann ­– „lífsgæði mælast verst í Reykjavík“.

Þegar fjármálastaða borgarinnar er greind blasir við hörmuleg staða sem bendir til að illa sé haldið á fjármunum af bákni sem Hildur segir „uppblásið“. Afgreiðsla erinda sé flókin og boðleiðir langar. Borgarkerfið flækist fyrir sjálfu sér.

Að greina vandann rétt eins og Hildur Björnsdóttir gerir er fyrsta skrefið til þess að á honum sé tekið. Að viðurkenna ekki vandann og telja hann jafnvel rós í eigin hnappagati eins og Dagur B. gerir er ekki annað en ávísun á enn meiri eyðslu og óráðsíu.