7.7.2018 10:05

Heyskapur í regntíð – liðsinna verður ljósmæðrum

Þeir sem vilja ljósmæðrum vel ættu að skapa andrúmsloft sem gerir þeim kleift að sameinast um leið út úr þessari erfiðu stöðu með nýjum samningi.

Rigningasumarið 1955 var ég í sveit á Reynistað í Skagafirði og minnist þess hve við í sólinni þar vorum hissa á fréttum af vandræðum við heyskapinn á Suðurlandi. Tæknin er önnur núna.

Received_10203037031964047Myndin er af vefsíðunni bbl.is. Það hafa ekki verið margir svona dagar til heypskapar á Suðurlandi i sumar.

Í gær birti Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum í Ásahreppi, á FB-síðu sinni:

„Þá er 26 tíma stanslausri rúllabindingu lokið, bundnar voru 800 rúllur. Það var gott að fá þessa tæpu tvo sólarhringa þurra, þar af var allgóður þurrkur í ca 5 tíma. En kröfur um veðurfar eru ekki orðnar miklar. Andri Leó átti nú megnið og nánast allt í þessu, ég var bara meðhjálpari, en fékk mínar stundir í þessu öllu.“

Elvar Eyvindsson, bóndi á Skíðbakka í Austur-Landeyjum, sagði þá á FB-síðu sinni:

„Smá montstatus í klikkuðu tíðarfari. Við Jóel erum búnir að rúlla án hlés í meira en sólarhring hátt í 800 rúllum (135 cm).“

Þá sagði Gísli Sigurðsson:

„Þingeyskir bændur rúlla bara frá níu til fimm. Á virkum dögum. Svo grilla þeir og fá sér rauðvínstár. Um helgar liggja þeir í sólbaði.“

*

Bergur Þór Ingólfsson birtir grein um verkfall ljósmæðra á vefsíðu Kvennablaðsins föstudaginn 6. júlí. Þar ræðst hann á Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og Sjálfsæðisflokkinn með þessum orðum:

„Að fylgjast með honum er eins og að horfa á fortíðarsjónvarpsefni á borð við Downtown Abbey. Hroki og hleypidómar virðast vera einkennismerki flokks hans.“

Telur Bergur Þór að helsta krafa ljósmæðra sé að fá „hlustun“ þær vilji: „Kerfisbreytingar. Viðhorfsbreytingar. Menningarþróun. Eitthvað sem valdafólk í flokki fjármálaráðherra á erfitt með að tengja við og skilja.“

Síðan kemst Bergur Þór þrisvar sinnum svo að orði „ef ég skil ljósmæður rétt...“ Sanna þau orð hans að hann veit ekki frekar en svo margir aðrir um hvað þessi deila snýst. Fulltrúar ljósmæðra segja kröfur sínar leyndarmál.

Bergur Þór skrifar gamaldags grein þar sem lagt er út af því hvernig hann segist skilja ljósmæður til þess eins að skeyta skapi sínu á Sjálfstæðisflokknum og formanni hans. Er undarlegt hve lengi menn endast til að höggva í þann knérunn. Virkar það stundum eins og kjækur.

Samninganefnd ríkisins sýndi undir lok maí að hún vill semja við ljósmæður en þær felldu samninginn í byrjun júní. Þeir sem vilja ljósmæðrum vel ættu að skapa andrúmsloft sem gerir þeim kleift að sameinast um leið út úr þessari erfiðu stöðu með nýjum samningi. Einn velunnari þeirra spurði: Hvers vegna ganga þær ekki í félag hjúkrunarfræðinga?