8.2.2024 9:27

Hervæðing norræns samstarfs

 Á vettvangi Norðurlandaráðs gerist sama og annars staðar þar sem varnar- og öryggismál eru á dagskrá, þau móta mjög pólitískar umræður þeirra sem hafa á þeim þekkingu og bera á þeim ábyrgð.

Rætt var um málefni Norðurlandaráðs á alþingi 1. febrúar og þar sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, frá því að sumarið 2023 hefðu norskir þingmenn boðið norrænum starfssystkinum að heimsækja herbúðir inni í norsku fjalli og hefði hún „aldrei áður séð þvílíkt magn af hergögnum“.

Þá hefðu þau farið á Ørland-herflugvöllinn og séð þar herþotur sem hún kynni ekki að nefna. Þetta hafa ef til vill verið norsku F-35 orrustuþoturnar sem komu hingað til nokkurra vikna loftrýmisgæslu um miðjan janúar með 120 manna norsku herliði. Var það í áttunda sinn sem Norðmenn senda slíkan liðsafla hingað.

Bryndís sagði að stoltir norskir þingmenn hefðu annars vegar sýnt hvernig norski herinn væri búinn en ekki síður hvernig birgðageymslur NATO væru þarna inni í fjöllunum og alla vinnuna í kringum þær.

Brynd-C3-ADs-20Haraldsd-C3-B3ttir427469Bryndís Haraldsdóttir á þingi Norðurlandaráðs (mynd: Johannes Jasnsson/Norden.,org).

Formaður Íslandsdeildarinnar sagði nýjan tón í norrænu samstarfi birtast í meiri umræðum um hermál á vettvangi Norðurlandaráðs. Þingmenn herlausrar þjóðar á Íslandi skorti sömu þekkingu og þingmenn annarra norrænna ríkja á hernaðarmálefnum. „Ég held hreinlega að við getum margt lært í þeim efnum,“ sagði Bryndís réttilega. Hún sagðist ekki tala fyrir því að við stofnuðum íslenskan her en kannski væri ástæða „til að hafa norrænan her“. Norrænu ríkin væru farin að vinna mikið saman í hermálum og mikið væri um sameiginlegar æfingar norrænu herjanna.

Á vettvangi Norðurlandaráðs gerist sama og annars staðar þar sem varnar- og öryggismál eru á dagskrá, þau móta mjög pólitískar umræður þeirra sem hafa á þeim þekkingu og bera á þeim ábyrgð.

Frumskylda stjórnvalda hvers ríkis er að tryggja öryggi borgaranna. Allt annað víkur fyrir þessari skyldu, telji menn hættu á ferð. Þessu kynnumst við Íslendingar vegna náttúruhamfara, jarðelda og snjóflóða. Þar reisum við varnargarða og grípum til annarra forvarna. Við látum okkur hins vegar minna varða forvarnir þegar litið er til ytra öryggis.

Í byrjun þessa árs vakti ræða almannavarnaráðherra Svíþjóðar á árlegri ráðstefnu Svía, Folk og forsvar, marga af værum blundi þegar hann spurði: Eru Svíar búnir undir stríð? Á sömu ráðstefnu sýndi sænski yfirhershöfðinginn myndir frá stríðshörmungunum í Úkraínu og sagði að svona gæti orðið umhorfs í Svíþjóð yrði ekki hlúð þannig að vörnum landsins að enginn treysti sér til að ráðast inn í landið.

Hervæðingin er ekki aðeins á pólitískum vettvangi annars staðar á Norðurlöndunum. Danir ákváðu til dæmis á dögunum að verja 400 milljónum dollara (56 milljarða ISK) til að efla eftirlitsstarf á Norður-Atlantshafi í samvinnu við stjórnir Færeyja og Grænlands. Beita á drónum til aukins eftirlits úr lofti og efla flotastyrkinn.

Það er rétt hjá Bryndísi Haraldsdóttur að íslenskir þingmenn mega ekki láta sitt eftir liggja. Við Íslendingar verðum að auka þekkingu, umræður og skilning á hvað hér er í húfi.