2.8.2022 9:50

Herstjórnarlist Úkraínumanna

Þessi lýsing ástralska hershöfðingjans er enn ein áminningin um hörmungarnar sem Vladimir Pútin hefur kallað yfir nágranna sína og eigin þjóð með þessum tilgangslausa hernaði.

Mick Ryan, fyrrverandi hershöfðingi í her Ástralíu, félagi í bandarísku öryggismála hugveitunni CSIS, hefur birt þá skoðun á netinu að undanfarna fimm mánuði hafi Úkraínumönnum tekist að móta hernaðarstefnu sem dugi þeim til að hafa í fullu tré við sér miklu stærri og hernaðarlega öflugri nágranna. Hann lýsir skoðun sinni í 24 færslum á Twitter

„Úkraínumenn hafa í stórum dráttum neitað að berjast á þann hátt sem Rússar vilja. Úkraínski herinn hefur með miklum aga þróað og framkvæmt eigin herstjórnarstefnu. Hvað geta aðrar þjóðir lært af her Úkraínu? Í stuttu máli: mikið,“ segir Mick Ryan, á einfaldan hátt megi lýsa þessu með einu orði: tæringu (e, corrosion).

„Með því að láta sverfa að rússneska hernum á vígvellinum, siðferðilega og vitsmunalega hafa Úkraínumenn þróað þessa hernaðarlist. Þannig birtist stríð 21. aldarinnar,“ segir hann.

Mick Ryan segir að með þessa herstjórnarlist að leiðarljósi takist Úkraínumönnum að ráðast á veika bletti Rússa en einnig að beita slagkrafti sínum til að tefja og valda uppnámi meðal rússneskra hermanna sem veiki baráttuþrek þeirra. Í átökunum hafi her Úkraínu með góðum árangri tekist að ráðast á stuðningskerfi hersins utan vígvallarins eins og fjarskiptakerfi, birgðaflutningaleiðir, stórskotalið og háttsetta herforingja. Þetta minnki baráttuþrek heraflans í heild og grafi undan aga innan hans. Merki um það megi sjá á fjölda liðhlaupa, andstöðu við fyrirmæli og fjölgun stríðsglæpa.

Ryan segir að hernaðarstefna Úkraínumanna snúi ekki aðeins að því sem gerist á vígvellinum. Þeim hafi á nýstárlegan hátt tekist að virkja samfélagsmiðla sér til stuðnings auk þess að vinna skipulega að skoðanamyndun á alþjóðavettvangi málstað sínum og hernaði til stuðnings. Leiðtogar þjóðarinnar, embættismenn og ekki síst her Úkraínu eigi nú 1,2 milljónir fylgjenda á Twitter. Frá upphafi stríðsins hafi samfélagsmiðlar verið notaðir markvisst til að sýna myndir og birta lýsingar á einstökum atvikum í stríðinu og hrakförum Rússa. Fyrir utan að þetta minnki baráttuvilja rússnesku hermannanna stuðli þetta að stuðningi frá ESB og NATO.

FXSe-ymUsAIP4r6Undanfarna mánuði hafa vestræn stjórnvöld látið Úkraínuher í té langdrægari skotflaugakerfi en áður. Mick Ryan segir að það styrki enn útfærslu Úkraínumanna á hernaðarstefnu sinni með markvissum árásum á rússneskar vopnageymslur og háttsetta rússneska foringja fjarri víglínunni.

Við þetta versnar ástandið enn innan rússneska hersins segir Mick Ryan. Þar sé ekki unnt að fá nægilegan liðsauka til að gefa örþreyttum hermönnum hvíld heldur búi þeir við stöðugar árásir, líkamlegar og sálrænar, samhliða kröfum frá Moskvu um að þeir sæki fram og sýni óvininum í tvo heimana. Moskvufyrirmælin verði til þess að herforingjarnir taki meiri áhættu en ella með fyrirmælum um vafasamar hernaðaraðgerðir.

Þessi lýsing ástralska hershöfðingjans er enn ein áminningin um hörmungarnar sem Vladimir Pútin hefur kallað yfir nágranna sína og eigin þjóð með þessum tilgangslausa hernaði.