24.9.2018 10:28

Hernaðarandstæðingar una reglum gegn peningaþvætti

Úr því að kröfum er fylgt fast eftir gagnvart Stefáni Pálssyni og Samtökum hernaðarandstæðinga virkar eftirlitskerfið.

Í Morgunblaðinu og á mbl.is er upplýst í dag (24. september) að Stefán Pálsson, sagn- og bjórsérfræðingur, hafi ákveðið að fara ekki í stríð við Arion-banka. Ástæðan fyrir þessu hættuástandi er að reikningi Samtaka hernaðarandstæðinga, sem veltir 80.000 kr. á ári og Stefán stýrir, var lokað hjá Arion-banka vegna þess að „afrit vantaði af persónuskilríkjum allra stjórnarmanna,“ segir í blaðinu og einnig:

„Stefán Pálsson, sagnfræðingur og hernaðarandstæðingur, vakti athygli á þessu á facebooksíðu sinni um helgina: „Þetta mun vera hluti af baráttunni gegn peningaþvætti. Ruglið í eftirlitsiðnaðinum ríður ekki við einteyming,“ skrifaði hann á facebooksíðuna.“

Money-launderingReglur um peningaþvætti krefjast þess að bankar hafi í vörslu sinni gild persónuskilríki stjórnarmanna félaga í reikningi hjá bankanum. Finnst Stefáni: „pínkulítið hvimleitt þegar menn fara í svona sýndareftirlit“ og bætir við:

„Ég hef lítið verið að stunda alþjóðlegt peningaþvætti en mig brestur ímyndunarafl hvernig þetta getur verið vettvangurin fyrir það hvað menn séu að stoppa og hverju það skilar.“

Um þessar mundir nötrar danska bankakerfið og skelfur vegna ótrúlega umfgangsmikils peningaþvættis fyrir Rússa í útibúi Danske Bank í Eistlandi. Er þeim ólöglegu umsvifum, sem m.a. eru sögð tengjast Vladimir Pútín Rússlandsforseta og fjölskyldu hans, lýst sem mesta hneyksli af þessu tagi innan ESB. Sér ekki fyrir endann á því.

Ef Stefán Pálsson vildi skrá reikning Samtaka hernaðarandstæðinga í banka sem fylgdi ekki ströngum reglum til að sporna gegn peningaþvætti hefði hann átt að leita fyrir sér innan Danske Bank. Stjórnendur bankans létu árum saman undir höfuð leggjast að bregðast við athugasemdum um að þeir gættu ekki nauðsynlegrar varúðar.

Upphrópun Stefáns á FB-síðu sinni um kröfur Arion-banka er fagnaðarefni. Hún hlýtur að berast til þeirra í Rússlandi og annars staðar sem töldu að reglum um peningaþvætti væri ekki fylgt hér á landi.

Úr því að kröfum er fylgt fast eftir gagnvart Stefáni Pálssyni og Samtökum hernaðarandstæðinga virkar eftirlitskerfið. Bankinn tók þá áhættu að þaulæfðir aðgerðasinnar stofnuðu til andófs við höfuðstöðvar hans.