26.7.2022 9:48

Herlaust Kosta Ríka í hers höndum

Í maí lýsti Rodrigo Chaves, sem kjörinn var forseti í apríl, yfir neyðarástandi landinu með þessum orðum: „Við eigum í stríði, og þá er ekki of fast að orði kveðið.“

Þegar rætt er um herlaus þjóðríki auk Íslands er Mið-Ameríkuríkið Kosta Ríka jafnan nefnt til sögunnar. Í maí lýsti Rodrigo Chaves, sem kjörinn var forseti í apríl, yfir neyðarástandi landinu með þessum orðum: „Við eigum í stríði, og þá er ekki of fast að orði kveðið.“

Ástæðan fyrir yfirlýsingu forsetans eru netárásir sem gerðar hafa verið á Kosta Ríka og fimm milljónir manna sem þar búa. Árásirnar hafa lamað stjórnkerfi landsins og vegið að almanna- og sjúkratryggingakerfinu auk margvíslegs annars tjóns sem tölvuþrjótarnir valda. Þeir nota „gíslatökuforrit“ í því skyni að kúga fé út úr stjórnvöldum. Þeir neita með öðrum orðum að sleppa tökum á tölvukerfunum án greiðslu.

José Adalid Medrano Melara, lögfræðingur í Kosta Ríka, sérfróður um upplýsingatæknirétt, segir tilgangslaust hjá forseta landsins að lýsa yfir neyðarástandi og ætla að stjórna í krafti þess, menn verði að læra að lifa með netglæpamennsku, hún sé viðvarandi. Neyðarástand gagnist ef til vill vegna eins einstaks atviks. Stjórnvöld landsins virðist ekki átta sig á umfangi vandans.

XVM25fbbd92-0c20-11ed-9730-e1fada5295faRodrigo Chaves, forseti Kosta Ríka.

Sérfræðingar í Mið-Ameríku segja að nú gefi það meira í aðra hönd að stunda glæpastarfsemi netheimum en fíkniefnasölu.

Gerð var árás 17. apríl 2022 á 27 opinberar stofnanir í Kosta Ríka. Meðal þeirra var fjársýsla ríkisins, raskaðist innheimta á sköttum og tollum auk launagreiðslna til starfsmanna ríkisins. Er tjónið talið nema nokkur hundruð milljónum dollara.

Conti-glæpahópurinn er grunaður um árásina í apríl. Hann starfar í St. Pétursborg í Rússlandi og sagður hafa tengsl við Kremlverja. Segja sérfróðir menn í Kosta Ríka að frá 2021 til 2022 sé Conti einn fengsælasta rússneski net-glæpahópurinn. Hann hafi halað inn um 400 milljónir dollara á aðeins einu ári. Stjórnvöld í Kosta Ríka hafi fyrst neyðst til að greiða Conti 10 milljónir dollara og síðan 20 milljónir. Með vísan til þess lýsti forseti landsins yfir stríðs- og neyðarástandi.

Í dagrenningu 31. mái 2022 gerði Hive-netgíslatökuhópurinn árás á almanna- og sjúkratryggingastofnun Kosta Ríka og neyddi hana til að loka fyrir öll lykil-netkerfi sín þar á meðal stafrænar sjúkraskrár og innheimtukerfi sitt.

Hive-glæpahópurinn er sagður rússneskur eins og Conti. Sérhæfir Hive sig í árásum á sjúkra- og heilbrigðiskerfi. Hive upplýsti í desember 2021 að liðsmenn hópsins hefðu á sex mánuðum ráðist á 355 stofnanir, flestar í Bandaríkjunum. Af þeim hefðu að minnsta kosti 104 greitt lausnargjald til að endurheimta tölvukefi sín.

Undanfarin misseri hafa stjórnvöld í Kosta Ríka unnið markvisst að stafrænni umbreytingu í stjórnkerfi og opinberum stofnunum landsins. Þau sitja nú undir ámæli fyrir að huga ekki jafnframt skipulega að netöryggi. Skort hafi ráðstafanir til að draga úr hættunni á árásum og koma í veg fyrir að kerfunum sé lokað af tölvuþrjótum. Ekki sé nóg að lögfesta reglur um netöryggi það verði einnig að framfylgja þeim með markvissum vörnum og eftirliti.