Helsinki-sáttmálinn 50 ára
Með vísan til sáttmálans urðu til Helsinki-nefndir í mörgum ríkjum kommúnista. Börðust nefndirnar fyrir rétti borgaranna til orðs og æðis. Þegar litið er til baka er augljóst að sáttmálinn markaði tímamót.
Þess er minnst í dag á hátíðlegan hátt í Helsinki að 50 ár eru liðin frá því að ríkisoddvitar Evrópu (fyrir utan Albaníu), Bandaríkjanna og Kanada, aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, rituðu undir Helsinki-sáttmálann.
Ég var í íslensku sendinefndinni í Helsinki þennan dag 1975 undir forystu Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra. Þá starfaði ég sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og naut leiðsagnar reyndra sendiherra, Péturs Thorsteinssonar og Einars Benediktssonar, sem voru einnig í Helsinki.
Allir ríkisoddvitarnir, forsetar, forsætisráðherrar, Makaríos erkibiskup á Kýpur og fulltrúar Vatíkansins fluttu ræður. Við Einar náðum því markmiði okkar að fá undirskriftir þeirra allra í eintak af dagskrá ráðstefnunnar.
Eftir heimkomuna þýddi ég Helsinki-sáttmálann á íslensku og var hann gefinn út. Það var skylt samkvæmt efni hans að textinn yrði aðgengilegur á tungum allra ríkjanna, almenningi til kynningar. Þar er til dæmis hátíðlega mælt fyrir um virðingu fyrir mannréttindum, rétt til gagnrýni á stjórnvöld og helgi landamæra.
Úr fundarsalnum í Helsinki í lok júlí 1975. Fremst á myndinni er sendinefnd Bandaríkjanna, Gerald Ford foreti fyrir miðju en honum á hægri hönd má sjá Henry Kissinger utanríkisráðherra blaða í skjölum.
Með vísan til sáttmálans urðu til Helsinki-nefndir í mörgum ríkjum kommúnista. Börðust nefndirnar fyrir rétti borgaranna til orðs og æðis. Þegar litið er til baka er augljóst að sáttmálinn markaði tímamót í samskiptum austurs og vesturs og einnig í þjóðlífi Sovétríkjanna og annarra kommúnistaríkja.
Innrás Vladimirs Pútins í Úkraínu er freklegt brot á sáttmálanum og raunar allir stjórnarhættir Pútins innan Rússlands.
Í ávarpi sem Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti flutti í dag (31. júlí) í tilefni af 50 ára afmæli Helsinki-sáttmálans hvatti hann ríki heims til að beita sér fyrir „stjórnarskiptum“ í Rússlandi, annars myndi Pútin halda áfram að grafa undan stjórnvöldum nágrannaríkja sinna með því að skapa sundrungu innan landamæra þeirra.
Zelenskíj sagðist sannfærður um að þrýsta mætti svo á Rússa að þeir hættu stríðinu. Þeir hefðu hafið stríðið og það mætti neyða þá til að hætta því. Gerðu ríki heims ekkert til að skipt yrði um stjórn í Rússlandi myndu ráðamenn í Moskvu halda áfram að hrella nágranna sína, jafnvel eftir að stríðinu lyki.
Það var þíða í samskiptum austurs og vesturs um miðjan áttunda áratuginn en undir lok hans jókst spenna á ný þegar Sovétmenn settu upp SS-20 kjarnorkuflaugarnar sem ógnuðu Vestur-Evrópuríkjunum.
Undir forystu jafnaðarmannsins Helmuts Schmidt, kanslara Þýskalands, snerust Evrópuríkin til varnar og sömdu um að bandarískar kjarnaflaugar yrðu í löndum þeirra.
Sovétmenn misstu hernaðarlegt forskot sitt og á níunda áratugnum gafst Mikhaíl Gorbatsjov leiðtogi þeirra upp andspænis Ronald Reagan, Margaret Thatcher og Jóhannesi Páli II. páfa.
Hafi verið þörf á því á þessum árum að ríki frjálsa heimsins sameinuðust til að hafa hemil á útþenslustefnu Rússa er lífsnauðsynlegt að gera það núna. Pútin er illskeyttari en forverar hans í Kreml. Hann ritar ekki undir neina sáttmála og óútreiknanlegur vegna valdafíknar og útþensluþráar.