18.4.2022 10:40

Helgistundir í Krosskirkju

Krosskirkja í Austur-Landeyjum hefur nýlega verið endurbætt en þar er söguleg altaristafla sem kirkjunni var gefin árið 1650.

Á páskadag, 17. apríl fórum við í Krosskirkju í Austur-Landeyjum þar sem sr. Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir á Breiðabólstað í Fljótshlíð messaði.

Krosskirkja hefur nýlega verið endurbætt en þar er söguleg altaristafla sem kirkjunni var gefin árið 1650. Þorsteinn Helgason, fyrrv. prófessor í sagnfræði og sögukennslu við HÍ, birti grein í Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2005 og kynnti þá niðurstöðu að altaristaflan á Krossi í Austur-Landeyjum væri trúarleg túlkun á voðaverkum sem unnin voru 23 árum fyrr en taflan var sett upp í kirkjunni, Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum árið 1627.

Undir altaristöflunni á Krossi er málað á fjöl með skýrum og stórum stöfum þvert yfir: Denne Tafle Haffuer Clavs Eyjolffsson och Niels Clementsson forærid til Kross Kirkie Vdi Land Eijen. A° 1650: Þessa altaristöflu hafa Kláus Eyjólfsson og Níels Klemensson gefið til Krosskirkju í Landeyjum árið 1650.

Kláus var að sögn Þorsteins „gildur bóndi í Hólmum í Landeyjum og lögréttumaður í hálfa öld“ en þó þekktastur „fyrir ritverk sitt sem lesið hefur verið á Íslandi í hartnær þrjú hundruð ár. Það er frásögn af Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum sem hann skrifaði nánast á vettvangi, eins og blaðamaður“.

Níels var danskur kaupmaður á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum „hann skipulagði varnir eyjanna eftir Tyrkjaránið og stjórnaði endurbyggingu Landakirkju,“ segir Þorsteinn. Hann sendist með bækur fyrir Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup og seldi honum „altarisflösku úr silfri“.

Hér verður rökstuðningur Þorsteins í grein hans ekki rakinn en hana má nálgast hér.

Myndirnar bregða ljósi á endurbætur á kirkjunni.

IMG_4775Frá Krossi í Austur-Landeyjum, bærinn og kirkjan standa niður við ströndina áður en sandurinn byrjar.

Krosskirkja-05.03.18JPGMyndin er tekin í Krosskirkju 5. mars 2018 þegar Rut kom þangað til að búa sig undir tónleika nokkrum dögum síðar. Austurgaflinn hafði verið fjarlægður að hluta vegna endurbóta, altaristaflan fjarlægð og predikunarstóll færður úr stað.

Elvar-14.03.18Í Krosskirkju 14. mars 2018, kirkjunni hafði verið lokað til bráðabirgða fyrir tónleikana á myndinni til vinstri er Elvar Eyvindsson bóndi og til hægri Guðjón Halldór Óskarsson, orgelleikari og kórstjóri.

Tonl.-14.03.18Frá tónleikunum í Krosskirkju 14. mars 2018. Fremst á myndinni er Rut með fiðluna og þá einsöngvararnir  Bjarni Guðmundsson, Sigríður Aðalsteinsdóttir og Aðalheiður M. Gunnarsdóttir ásamt félögum úr kirkjukórum í Rangárþingi. Flutt var tónlist eftir Bach.

Kross-14.04.22IMG_4776Endurbætt Krosskirkja er fögur að innan. Altaristaflan frá 1650, mynd tekin á páskadag 17. apríl 2022. Miðmyndin sýnir upprisu Krists. Á vinstri væng er þjáður Kristur. Á hægri væng er Kristur og gengur sverð fram af munni hans. Barist skal með orði.

IMG_4773Til Vestmannaeyja 17. apríl 2022. Þegar ekið var um Landeyjarnar þennan páskadag voru þúsundir gæsa á túnum að jafna sig eftir flug yfir úthafið.