27.10.2017 20:51

Helga Vala vill auka tekjur lögmanna með fjölgun hælisleitenda

Verði Helga Vala Helgadóttir dómsmálaráðherra eins og að er stefnt verður þröskuldurinn fyrir hælisleitendur lækkaður á sama tíma og hann er hækkaður annars staðar í Evrópu. Síðan verði lögmönnum tryggt fjármagn úr ríkissjóði til að sinna málum þessara hælisleitanda.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður benti á það í grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 26. október að þingmannsefni Samfylkingarinnar í Reykjavík Helga Vala Helgadóttir  og nokkrir aðrir lögmenn hafi nýlega ritað skýrslu um málefni sem tengjast útlendingum sem hingað koma en útgjöld vegna þeirra hefðu aukist stjarnfræðilega. Ekki væri þó að sjá að þau hefðu  minnstu áhyggjur af útgjöldum til málsins.

Telur Einar að sprenging myndi verða í umsóknum og útgjöldum ef farið yrði að tillögu lögfræðinganna. Hann spyr hvort það sé það sem Ísland þurfi, að verða eina landið í álfunni sem ekki bregst við ásókn útlendinga í velferðarkerfi sem byggt hefur verið af kynslóðum sem hér hafa komið því á af stakri eljusemi.

IMG_3694

Í máli Helgu Völu komi fram að lögfræðistofan hennar hafi gefið „hælisleitendum“ 500 tíma á síðasta ári. Nú þegar ríkið eigi að borga fyrir alla, verði heldur en ekki gósentíð hjá lögmönnum á borð við Helgu Völu, segir Einar S. Hálfdanarson.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 27. október er birt viðtal við Helgu Völu Helgadóttur um efni þessarar skýrslu og kostnaðinn sem sem af henni fylgir. Hún svarar „Ég tel að það sé full ástæða til þess að þegar Lögmannafélagið hefur skilað af sér skýrslu sem þessari þá skoði ráðuneytið það og innihald skýrslunnar og kalli sérfræðinga að borðinu. Ég ætla ekki að fara inn í þá aðstöðu að svara já eða nei með þetta. Það er ráðuneytið sem tekur ákvörðun um þetta út frá skýrslunni. Þetta er í þessu ferli, það er búið að óska eftir þessari skýrslu og þá finnst mér ekki rétt að gefa upp mína afstöðu.“

Þetta er einkennilegt sjónarmið hjá einum höfundi skýrslunnar. Helga Vala treystir sér ekki til að svara fyrir skýrsluna sem hún samdi. Hún telur sig geta komist upp með að láta eins og þetta snúist ekki um launatekjur sínar og annarra Eins og Einar bendir á er þetta spurning um að ríkið greiði lögmönnum eins og Helgu Völu laun. Hún segir hins vegar að þetta sé málefni ráðuneytisins! Nú stefnir hún að því að verða dómsmálaráðherra og ætlar að ákveða þetta þá.

Verði Helga Vala Helgadóttir dómsmálaráðherra eins og að er stefnt verður þröskuldurinn fyrir hælisleitendur lækkaður á sama tíma og hann er hækkaður annars staðar í Evrópu. Síðan verði lögmönnum tryggt fjármagn úr ríkissjóði til að sinna málum þessara hælisleitanda.

Í viðtalinu í Morgunblaðinu segir:

„Spurð hvort einstakar lögmannsstofur muni þá ekki fá mikið fé úr ríkissjóði vegna þessara mála sem koma upp segir Helga Vala að aðrar stofur fái greitt fyrir sambærileg mál. „Við getum alveg eins horft á þetta með bankamenn. Eiga bankamenn að fá verjendur sem eru kostaðir af ríkinu? Einstaka lögmenn hafa fengið 50 milljónir króna greiddar í málskostnað úr ríkissjóði. Er það réttlátt að einstaka lögmannsstofur fái slíkt? Þetta er alveg sambærilegt.““

Af þessum orðum er ljóst að frambjóðandinn telur réttmætt að ríkissjóður skapi jafnræði milli lögmanna sem sinna hælisleitendum og þeim sem hafa fengið samþykkt gjafsókn vegna bankamanna.

Það er augljóslega rétt hjá Einari S. Hálfdanarsyni að Helga Vala Helgadóttir stefnir að mikilli útgjaldaaukningu til lögmanna með mikilli fjölgun hælisleitenda.