8.11.2022 10:45

Helga Vala til hliðar

Allt gerist þetta fyrir luktum dyrum í Samfylkingunni og Helga Vala sem aldrei hikar við að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum lét blaðamann Morgunblaðsins ekki ná í sig til að fá hennar hlið þessa máls.

Í þingflokki Samfylkingarinnar sitja sex manns. Skipt var um formann í Samfylkingunni fyrir 10 dögum. Þing sat ekki í vikunni eftir formannsskiptin en þá bárust fréttir um að líklega stæði til að skipta um formann í þingflokknum. Ný flokksformaðurinn Kristrún Frostadóttir teldi það falla best að stefnu sinni og starfsháttum.

Þing kom saman að nýju mánudaginn 7. nóvember og þar með þingflokkur Samfylkingarinnar. Hann tók ákvörðun um að víkja Helgu Völu Helgadóttur þingflokksformanni til hliðar og kjósa Loga Einarsson, fráfarandi flokksformann, í hennar stað. Þórunn Sveinbjarnardóttir var kjörin varaformaður þingflokksins og Jóhann Páll Jóhannsson ritari.

1257374Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Frostadóttir (samsett mynd mbl.is).

Tveir þingmenn Samfylkingarinnar eru án flokkslegrar trúnaðarstöðu í þingflokknum: Helga Vala Helgadóttir og Oddný Harðardóttir.

Í Morgunblaðinu í dag er Logi Einarsson inntur eftir því hvers vegna hann sé að taka við af Helgu Völu. Logi svarar:

„Ég er ekki að velta því neitt fyrir mér. Mér finnst gott að hafa traust til þess að sinna þessu og ég hlakka til. Mér finnst spennandi tímar framundan hjá Samfylkingunni. Það voru mjög skýrar áherslur sem komu fram í ræðu hennar [Kristrúnar] á landsfundi og ég held að það séu mikil sóknarfæri framundan.“

Logi tók með öðrum umhugsunarlaust við formennskunni og þykir ekkert sjálfsagðra en að Helga Vala víki fyrir sér í þessum fámenna hópi. Hann sé betur fær um standa að því að áherslur nýs flokksformanns en Helga Vala.

Allt gerist þetta fyrir luktum dyrum í Samfylkingunni og Helga Vala sem aldrei hikar við að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum lét blaðamann Morgunblaðsins ekki ná í sig til að fá hennar hlið þessa máls.

Reglur Samfylkingarinnar um formannskjör eru hannaðar með það fyrir augum að unnt sé að „krýna“ formann átakalaust sé hætta talin á að átök um formennskuna verði til þess að brjóta veikar flokksstoðirnar. Þessari aðferð var beitt við valið á Kristrúnu Frostadóttur.

Að Helga Vala Helgadóttir hafi stöðu til að stofna til átaka innan sex manna þingflokksins til að halda forystu þar er af og frá. Oddný Harðardóttir hafði verið þingflokksformaður síðan 2017 þegar Helga Vala ýtti henni til hliðar í fyrra. Oddnýju var sársaukalaust að Logi fengi hnossið.

Kristrún er flokksformaður vegna þess að Jóhann Páll hringdi í hana við val á framboðslistum fyrir kosningarnar 25. september 2021 og benti henni á að Samfylkinguna vantaði frambjóðendur. Hann studdi ákvörðun Kristrúnar um Loga þótt hann teldi að vísu sjálfan sig betur til forystu fallinn. Þórunn Sveinbjarnardóttir kann að hafa stutt Helgu Völu en tvær máttu þær sín einskis gegn Loga og þeim fjórum sem studdu hann.

Það er furðulegt að Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, fyrrv. þingmaður Samfylkingarinnar, skuli telja það líklegt til árangurs um leið og hann kynnir blaðið í kössum í stórverslunum að vega að lýðræðislegum stjórnarháttum í Sjálfstæðisflokknum í leiðara blaðsins. Fréttablaðið á eins mikið undir högg að sækja og Samfylkingin – sælt er sameiginlegt skipbrot.