29.10.2019 10:01

Helg fjölmiðlavé og seðlabankinn

Skilaboð Íslandsbanka kölluðu fram áminningu um að ritstjórnarskrifstofur fjölmiðla séu helg vé gagnvart þrýstingi almannatengla þótt fingraför þeirra sjáist eða heyrist um allt.

Fyrirtæki setja sér misjafnlega háleit markmið. Á vefsíðu Íslandsbanka segir til dæmis:

„Bankinn tekur þátt í stórum sem smáum verkefnum þar sem fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi en þau eru: aðgerðir í loftslagsmálum, jafnrétti kynjanna, menntun fyrir alla og nýsköpun og uppbygging.“

Bankinn ætlar að vinna að jafnrétti kynjanna með auglýsinga- eða styrkjastefnu sinni. Talið er að bankinn ætli að hlutast til um ritstjórnarstefnu eða efnistök fjölmiðla með því að vinna á þennan frumlega hátt í anda heimsmarkmiða SÞ.

Sumir höfnuðu boðskapnum sem hollustu við pólitískan rétttrúnað. Aðrir fögnuðu eins og Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, sem fékk næstum heilan morgunfréttatíma ríkisútvarpsins 29. október til að útlista jákvæða skoðun sína þó með þeim sósíalíska fyrirvara að bankinn mætti huga meira að fátækum. (Það er dæmigert að sósíalisti láti í ljós slíka umhyggju, hvergi er fátækt meiri vegna stjórnarstefnu en þar sem sósíalismi ríkir.) Img_2895_raw_1807130243_10016410216_o.width-720Seðlabanki Íslands. (Mynd Birgir Þór Harðarson.)

Allir eru í orði kveðnu fylgjandi jafnrétti kynjanna en ekki er sama hvernig málstaðnum er haldið að þeim.

Skilaboð Íslandsbanka kölluðu fram áminningu um að ritstjórnarskrifstofur fjölmiðla séu helg vé gagnvart þrýstingi almannatengla þótt fingraför þeirra sjáist eða heyrist um allt.

Í þessu andrúmslofti varð sjálfur seðlabankinn að senda frá sér tilkynningu mánudaginn 28. október þar sem segir að daginn áður en bankinn gerði húsleit hjá hjá Samherja hf. og tengdum aðilum hafi fréttamaður ríkisútvarpsins sent starfsmanni bankans í tölvupósti uppkast að frétt með tölvupósti þar sem húsleitarinnar var getið. Fullyrðir bankinn síðan að póstinum hafi ekki verið svarað og síðan þetta: „Það er því ekkert sem liggur fyrir um að upplýsingum hafi verið lekið frá Seðlabankanum enda ljóst að téð húsleit var á vitorði margra.“

Hafi sérfræðingar í almannatengslum verið seðlabankamönnum til ráðgjafar við gerð þessarar tilkynningar lifa þeir í heimi þar sem talið er að menn komist upp með allt í nafni þeirrar stofnunar. Viðurkenning á alvarlegum samblæstri liggur fyrir, hún snertir ekki aðeins seðlabankann heldur einnig fréttastofu ríkisútvarpsins sem býr við trúnaðarbrest vegna þessa atviks.