12.2.2024 9:26

Heitt vatn yfir nýja hraunið

Allt gekk að óskum og í morgunsárið streymdi vatn frá orkuverinu inn í heitavatnstanka HS Orku á Fitjum.

HS Orka sendi frá sér tilkynningu að morgni mánudags 12. janúar um að þá um nóttina um klukkan 01.00 hefði verið lokið við að sjóða saman nýja hjáveitulögn Njarðvíkuræðarinnar svonefndu sem hraunið rauf fimmtudaginn 8. febrúar. Þá var tengd neðanjarðarleiðsla sem hraunið rauf.

Laugardaginn 10. febrúar hófust framkvæmdir við nýja hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræðinni. Jarðýta ruddi slóða fyrir lagnaleiðina yfir heitt hraunið og voru jarðvegsfyllingar bornar ofan á hraunið. Átti að setja að minnsta kosti hálfan metra af malarpúða ofan í veginn. Vegagerðin yfir hraunið einfaldaði alla aðgerðina.


Microsoftteams Image 139

Vegagerð yfir hraunið. (Mynd HS Orka.)

Allt lagnaefni var komið á vettvang 10. febrúar og var unnið í mörgum hópum við að sjóða rör saman. Lögnin var dregin yfir hrauntunguna nú og síðan tengd við Njarðvíkuræðina beggja vegna hrauntungunnar um kl. 03.00.

Í tilkynningu HS Orku 10. febrúar sagði að myndu áætlanir ganga eftir yrði mögulega hægt að hleypa á lögnina eftir 3-4 sólarhringa. Það liðu hins vegar innan við tveir sólarhringar frá því að verkið hófst þar til heitu vatni var hleypt á lögnina.

Í tilkynningu HS Orku að morgni 12. febrúar sagði að lögnin hefði verið dregin með einni jarðýtu eftir slóðanum þvert yfir hraunið. Tengistykki til endanna hefðu verið þegar fullsmíðuð og tilbúin til áfestingar og hefðu þau verið komin á sinn stað upp úr klukkan þrjú um nóttina.

1470887Unnið við frágang á nýju lögninni. (Mynd HS Orka.)

Heitavatnsframleiðslu í orkuverinu í Svartsengi var sett af stað og vatni hleypt varlega á lögnina. Fylgst var með því að vatnið gæti streymt óheft og gerðar ráðstafanir gegn loftmyndun og óeðlilegri hitaþenslu á lögninni. Allt gekk að óskum og í morgunsárið streymdi vatn frá orkuverinu inn í heitavatnstanka HS Orku á Fitjum.

Í lok tilkynningar HS Orku segir:

„Framgangur og skipulag þessarar stóru aðgerðar er einstakt á allan hátt og má þakka styrkri forystu almannavarna ásamt fjölmennum hópi af öflugum fag- og iðnaðarmönnum, verktökum og verkfræðingum. Samstillt átak fjölmargra aðila hefur þannig tryggt að heitt vatn kemst vonandi á öll hús á Suðurnesjum á allra næstu dögum.“

Undir þessar vonir skal tekið um leið og öllum sem stóðu að þessu einstæða verki eru færðar þakkir og heillaóskir. Snerpa, áræði, hugvit og dugnaður hefur skilað ótrúlegum árangri á skömmum tíma. Enn eitt afreksverkið hefur verið unnið í baráttunni við náttúruöflin.