26.6.2022 12:43

Heitt en ekki kalt stríð

Eina sem er líkt með þróuninni nú og var á tíma kalda stríðsins er að gjá myndast að nýju milli lýðræðisríkja og alræðisríkja.

Við núverandi aðstæður heimsmála vegna innrásar Pútins í Úkraínu heyrist stundum og má lesa á prenti að nýtt kalt stríð sé hafið. Þetta er rangt. Ástandið nú er miklu verra en í kalda stríðinu. Það einkenndist af pólitískum átökum sem voru reist á grundvallarágreiningi um hvert skyldi stefna í samfélagsmálum. Annars vegar voru ríki sem stóðu vörð um lýðræðislega stjórnarhætti, frjáls viðskipti og frelsi einstaklingsins. Hins vegar voru alræðisríki þar sem eignarrétti einstaklinga var hafnað samhliða trúfrelsi og skoðanafrelsi.

Eina sem er líkt með þróuninni nú og var á tíma kalda stríðsins er að gjá myndast að nýju milli lýðræðisríkja og alræðisríkja. Hún stafar ekki af því að keppni sé háð milli kapítalista og kommúnista um ólík stjórnarform heldur af því að einræðisherrarnir herða tökin í anda alræðis á eigin þegnum og fylgja drottnunarstefnu gagnvart nágrönnum sínum þar sem hervaldi er beitt af miskunnarleysi eins og í Úkraínu eða beitingu þess er hótað eins og gagnvart Tævan og gert hefur verið í Hong Kong.

Trasset.dr.dkSprengjuský yfir Kyív sunnudaginn 26. júní 2022.

Í Evrópu er háð „heitt stríð“ og áhrif hernaðarátakanna verða sífellt víðtækari. Á pólitíska sviðinu hafa þau þegar leitt til sögulegra breytinga eins og best sést á Norðurlöndunum með umsókn Finna og Svía um aðild að NATO. Í kalda stríðinu hefði engum dottið þetta í hug. Þá var einfaldlega bannað að tala um varnar- og öryggismál á fundum Norðurlandaráðs til að þar yrði ekkert sagt sem kynni að raska því sem kallað var norræna jafnvægið í öryggismálum.

Þá eins og nú höfðu Rússar lítið annað að bjóða í alþjóðaviðskiptum en hrávöru og allt kalda stríðið keyptum við af þeim olíu og seldum þangað fisk auk iðnaðarvarnings. Viðurkennt var að þetta væru pólitísk viðskipti enda undir handarjaðri stjórnvalda í báðum löndum. Þegar gagnrýnt var hér að Sovétmenn misnotuðu viðskiptin pólitískt og jafnvel hernaðarlega leið aldrei á löngu þar til innlendir hagsmunaaðilar tóku að bera blak af Sovétmönnum.

Eftir að Pútin innlimaði Krímskaga árið 2014 og sætti vestrænum refsiaðgerðum heyrðust enn þau sjónarmið hjá ýmsum hér að honum væri ómaklega refsað. Að það var Pútin sem ákvað innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir til Rússlands var afflutt til að koma sök á íslensk yfirvöld. Nú eru slíkar raddir hjáróma og án hljómgrunns.

Í dag (26. júní) koma leiðtogar G7-ríkjanna svonefndu saman til þriggja daga fundar skammt frá Garmisch Partenkirchen í Bæjaralandi. Borgarstjóri Kyív segir að sprengjuárás Rússa á borgina sama dag og G7-fundurinn hefst sé tilraun til að hræða Úkraínustjórn frá því að óska eftir meiri stuðningi frá iðnveldunum. Pútin lét auk þess þau boð út ganga að einræðisherrann í Belarús hefði fengið skotflaugar sem nota mætti til að senda kjarnorkusprengjur inn í Úkraínu.

Ekkert sambærilegt hefði getað gerst í kalda stríðinu. Ástand heimsmála er einfaldlega allt annað nú en þá. Þeir hér á landi sem enn líta á NATO-aðild sem hættulega eða vilja ekki ræða öryggi og varnir þjóðarinnar með hliðsjón af breyttri heimsmynd minna á nátttröll. Þeir eru fastir í hugmyndafræði kalda stríðsins þar sem þeir skipuðu sér við hlið alræðisstjórna í stað varðstöðu um lýðræðislega stjórnarhætti.